26.07.1915
Efri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason):

Frv. þetta er hið sama og afgreitt var frá þinginu í fyrra. Það er óbreytt að öðru en því, að í kaflanum: „Ákvæði um stundarsakir“, er breytt ártölum, 1916 sett í stað 1915, og í 86. gr. er ákveðið, að lögin öðlist gildi „samtímis og þau eru birt í Stjórnartíðindunum“, í stað þess, að í frv. í fyrra áttu þau að öðlast gildi „samtímis nýju stjórnarskipunarlögunum“. Báðar þessar breytingar virðast sjálfsagðar.

Nefndin hefir íhugað frv. allvandlega og lítið fundið athugavert. Engar brtt. hafa enn komið fram frá öðrum, og enginn bent nefndinni á breytingar, svo líkur eru til, að hv. deild þyki frv. gott og það fái góðan byr.

Brtill. nefndarinnar eru að eins 8, og skráðar á þgskj. 81.

1. og 2. brtt. eru að eins orðabreytingar.

3. brtt. er breyting á orðaröð að eins.

4. brtt. fer fram á, að í stað þess að

ákveða hlutkestisseðla „jafnstóra“, skuli ákveða þá „sams konar“. Þetta er nákvæmara, því jafnstórir seðlar geta verið misþykkir, missnarpir eða mismjúkir og jafnvel mislaga. En sams konar seðlar verða að vera að öllu eins, og til þess er auðvitað ætlast, svo að ekki þekkist þeir sundur af þeim, sem dregur.

5. brtt. er efnisbreyting.

Í frv. er gjört ráð fyrir, að landskjörstjórnin sendi sýslumönnum og bæjarfógetum jafnmarga kjörseðla og kjósendur eru í lögsagnarumdæmi hvers þeirra og 10% fram yfir. En svo á hann að senda kjörstjórnum jafn marga kjörseðla og kjósendur eru í hverju umdæmi þeirra og 10% fram yfir. Þetta getur hann naumast, nema hann fái sjálfur meira en l00% fram yfir kjósendatölu í lögsagnarumdæminu. Þessu til sönnunar vil jeg benda á dæmi úr skýrslum Hagstofunnar um síðustu Alþingiskosningar.

Í Selvogshreppi í Árnessýslu eru t. d. 14 kjósendur. Til þess að fullnægja lögunum, hefði sýslumaðurinn orðið að senda þangað 16 kjörseðla. Ef hann hefði ekki sent nema 15, þá hefði hann slept 10% af þeim 4 seðlum, sem átti að senda fram yfir 10 og þá voru ekki send 10% fram yfir kjósendatölu.

Í Ölveshreppi voru 70 kjósendur. Þangað var því hæfilegt að senda 77 seðla, og stóð heima.

Í Grafningshreppi voru 13 kjósendur. Þangað varð því að senda 16 seðla.

Í Þingvallahreppi varð að senda 18 kjósendum 20 seðla, o. s. frv.

Ef talið er saman í þessum hreppum, eru kjósendur samtals 115. Setjum svarað sýslumaður hefði fengið handa þeim 115+12 seðla, eða 127 seðla, þá hefði hann fengið l0% fram yfir kjósendatöluna í þessum hreppum. En samkvæmt því, sem jeg hefi sagt, hefði hann orðið að senda þeim 15+77+16+20=128 seðla, og vantar því einn. Sje talið í öllum hreppum Árnessýslu. á þennan hátt, hefði vantað þar alls 8 seðla. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði vantað 7 seðla, og Rangárvallasýslu 5. Svipað yrði annarsstaðar.

Til þess að bæta úr þessu, leggur nefndin til, að sýslumönnum og bæjarfógetum verði send 12% fram yfir og ætti þá að vera orðið nóg.

6. og 7. brtt. eru að eins orðabreytingar, og 8. brtt. er að eins viðbót til skýringar. Nefndin hefir ekki fundið ástæðu til, að gera frekari breytingar á frv., og þar sem henni finst þetta vera svo lítilvægt og líkindin mikil fyrir því, að brtt. verði samþ., þá óskar hún þess, að þær verði ekki bornar undið atkvæði við þessa umræðu. Það mundi spara landinu um 200 kr., því ella þyrfti að prenta alt frv. upp aftur, með áorðnum breytingum. Nefndin leyfir sjer því að æskja þess, að hæstv. forseti beri þær ekki upp fyrr en við 3. umr., og mun taka þær aftur, . ef rjett þykir.