10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsm. (Steingrímur Jónsson):

Ástæðan til þess, að þetta frumv. er framkomið, er sú, að lögin nr. 58, 22. nóv. 1907, um stofnun brunabótafjelags Íslands, hafa ekki komist í framkvæmd. Mál þetta er mjög merkilegt og eitt hið mesta nauðsynjamál landsins. Nauðsynin á að fá hjer innlent brunabótafjelag er afar mikil, bæði vegna þess, hve iðgjöldin eru há hjá hinum útlendu brunabótafjelögum, sem menn utan Reykjavíkur verða að skifta við, og svo hins, að þau oft og tíðum hafa verið næsta ómjúk landsmönnum, þegar til þess hefir komið, að þau hafa átt að borga út brunabætur sínar. En nú hefir svo reynst, þrátt fyrir talsverðar tilraunir, að ómögulegt hefir verið, að koma slíku fjelagi á fót, sem hjer ræðir um, og hefir allt strandað á einu skilyrði — endurvátryggingum. Það hefir reynst ómögulegt að fá endurnýjaðar hinar hærri vátryggingar, eins og krafist er í 6. grein laganna. En nú er svo að sjá, að ekki sje nema um tvent að velja, annaðhvort að breyta lögunum, eða láta sitja við það ástand, sem nú er. Í nefndarálitinu hefir verið bent á það, að ústandið fer sífelt versnandi og er nú óviðunanlegt. Húseignir utan Reykjavíkur hækka stöðugt í verði, af því að kröfur manna um að byggja betur og vandaðar, aukast með hverju ári. Nefndinni var það ljóst, að nokkur áhætta var fyrir landssjóðinn, að leggja út í þetta og taka á sig ábyrgðina, en hins vegar fanst henni þetta svo mikið velferðarmál, að ekki mætti láta það viðgangast, að lögin yrði dauður lagabókstafur einn. Þess vegna varð það að lokum einróma álit nefndarinnar, að rjett væri, að ráða hv. deild til þess, að samþykkja frumv. Eru sjerstaklega tvær ástæður til þess.

Í fyrsta lagi er ,nauðsynlegt að stíga einhvern tíma fyrsta sporið í þessu framfaramáli, og það verður ekki gjört nú á annan hátt, og í öðru lagi lítur nefndin svo á, að alls ekki sje vonlaust um að endurtryggingarnar fáist, þegar fjelagið er einu sinni komið á laggirnar. Erlendu fjelögin hafa haft svo mikinn hagnað af Íslandi, að ekki er ólíklegt, að þau vilji halda sem lengst í viðskiftin.

Nefndin vill gjöra þá breytingu aðra á frv.; að hámark einstakra lausafjárvátrygginga verði sett 6000 kr., í stað 2000 kr., og að samanlögð upphæð lausafjárvátrygginga megi nema ¼ af öllum vátryggingum fjelagsins. Nefndin lítur svo á, ef lausafjárvátryggingar verða ekki settar hærra en 2000 kr., þá sje það alveg gagnslaust og þá alveg eins gott að sleppa því alveg. Það eru tiltölulega fá innbú í kaupstöðum, sem ekki eru meira virði, og er sjálfsagt að gefa mönnum tækifæri til þess, að geta trygt fyrir allt að 6000 kr. Það yrðu þá 2/3 hlutar af 9000 kr. búslóð, og undir það munu flest innbú komast hjer á landi.

Jeg vona að deildin sjái sjer fært, að samþ. frv. með þessum breytingum, og væri þá æskilegt, ef frv. gæti komið á dagskrá á morgun til 3. umræðu, því það verður að senda frv. aftur til Nd.