07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Flutnm. (Björn Þorláksson) :

Eins og menn sjá, þá er hjer að ræða um dálitla breytingu á lögum um kosningarrjett og kjörgengi frá 30. júlí 1909. Með þeim lögum var konum veitt jafnrjetti, hvað snerti kosningarrjett og kjörgengi í sveita- og bæjamálum, en jafnframt var þeim veitt heimild til að skorast undan kosningu. Ástæðan til þess hygg jeg hafi verið sú, að óviðfeldið þótti, að skylda konur til þess starfa, á meðan þær höfðu ekki jafnan rjett og karlmenn á öðrum sviðum. En jeg fyrir mitt leyti verð að líta svo á, að fyrst þær fengu jafnan rjett og karlar í þessum málum, þá hefði verið eðlilegast, að þær hefðu haft sömu skyldum að gegna. Á þinginu 1911 var borið upp frv., sem fór í þá átt, að þessi heimild skyldi burt numin. Meiri hluti Nd. var fylgjandi frv., en Ed. feldi það, og það, sem rjeð niðurlögum frv., mun hafa verið það, að mönnum þótti ekki við eigandi að leggja kvenfólkinu þessar skyldur á herðar, fyrst þær skorti jafnrjetti við karlmenn að öðru leyti. En nú vita menn, að málið horfir alt annan veg við. Með stjórnarskrárbreytingunni frá 19. júní þ. á. er konum veitt jafnrjetti á við karlmenn, og þá er eðlilegast, að þessi undanþáguheimild falli burt. Ástæðurnar, sem hafa verið færðar fyrir henni, eiga ekki lengur við, og þeirri reglu ætti jafnan að fylgja, að jafnar skyldur sjeu samfara jöfnum rjettindum. Jeg vil taka það fram, að mjer kemur ekki til hugar, að vilja íþyngja kvenfólkinu fyrir þá sök, að jeg hafi verið á móti jafnrjetti karla og kvenna. Jeg hefi áður lýst yfir því hjer í háttv. deild, að mjer var það mikið ánægjuefni að stjórnarskráin var staðfest, ekki síst fyrir þá sök, að með henni var konum veitt jafnrjetti á við karlmenn. Jeg er sannfærður um, að það verður til blessunar fyrir land og lýð, að kvenfólkið fær nú tækifæri til að vinna með okkur karlmönnunum. En auk þess er önnur orsök til þess, að jeg er þessu fylgjandi. Sú reynsla er víða komin á, að bestu og færustu konurnar skorast oftlega undan því, að taka við kosningu til sveita og bæjarstjórna. Jeg hygg, að allir kannist við það, að miklu máli skifti, að nýtustu og færustu menn vinni jafnan hvert verk fyrir hið opinbera, hvort heldur það er karl eða kona. Starfið verður vitanlega því betur af hendi leyst, sem maðurinn er hæfari. En reynslan er sú, að þær konur, sem almenningur álítur best til fallnar, hafa oftast skorast undan að taka við kosningu. Þetta er að vísu mjög svo óheppilegt, en ekki er það óeðlilegt, þar sem karlmenn hafa líka oft leitað allra undanbragða, til þess að komast hjá þessu starfi. — En af þessu hefir það leitt, að miður hæfar konur hafa þá valist til starfsins. Þetta er mjög skaðlegt fyrir konurnar, þegar litið er á þeirra hag, það álit og traust, sem þær eiga að afla sjer. Álit kvenfólksins vex við það, að starfið, sem þeim er fengið í hendur, er vel af hendi leyst, en það hlýtur að draga úr álitinu, ef framgjarnar en miður hæfar konur gefa kost á sjer, en þeim hæfari konur draga sig í hlje. Mjer er kunnugt um það, að margar hygnar og skynsamar konur líta eins á málið og jeg. Þær eru þeirrar skoðunar, að við það, að nema undanþáguheimildina í burt, mundi kvenþjóðin græða.

Jeg vil geta þess, að mjer finst málið svo einfalt og óbrotið, að ekki ætti að vera þörf á að setja það í nefnd. En jeg vona, að háttv. deild sýni málinu þá kurteisi, að vísa því til 2. umr.