09.09.1915
Efri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

61. mál, fræðsla barna

Jósef Björnsson:

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Seyðf. (K. F.), sem hann lagði mikið upp úr, en sem jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð, að sje stórvægilegt, sem sje það, að úr því barnapróf eru fyrirskipuð, þá sje hægt að vísa þeim börnum frá prófi, sem ekki eru nægilega vel að sjer. Sannleikurinn er sá, að þetta atriði er ekki nógu vel úr garði gjört, frá laganna hlið og eftir úrskurðun sjálfrar fræðslumálastjórnarinnar. Eina ástæðan, sem hægt er að fá til þess, að vísa barni frá prófi, er sú, að það nái ekki nógu háum meðalvitnisburði, en honum er svo auðnað, að jafnvel 12 ára gömul meðalgreind börn geta tekið próf þess vegna, og börn á þeim aldri hafa fengið eða tekið sjer leyfi til að taka fullnaðarpróf. Tel jeg þetta galla, ekki síst vegna þess, að ekki er sjerstaklega krafist, að þau sjeu sómasamlega að sjer í íslensku, sem börnunum þó auðvitað ríður mest á. Eins og sakir standa, gjöri jeg því ekki mikið úr því, þó vísa megi barni frá prófi fyrir ljelega kunnáttu. Það mundi sjaldan verða að verulegu gagni. Ef breyta á til, og fella niður skyldu til annara prófa en fullnaðarprófs, og gjöra ráð fyrir, að próf yngri barna falli niður, þá tel jeg það skaða, því jeg álít, að próf yngri barna sjeu til hvatningar og hafi nokkra þýðingu. En hitt játa jeg með háttv. þingmanni (K. F.), að ekki væri ranglátt, að sveitirnar legðu eitthvað af hendi í kostnað þann, sem af þeim leiðir, og að eðlilegt sje, að fullnaðarprófin ein sjeu kostuð af landssjóði. Annars álít jeg þetta mál enn eigi svo undirbúið, sem æskilegt væri til þess, að rjett sje að gjöra slíka breytingu.