14.09.1915
Efri deild: 62. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

132. mál, tollar fyrir Ísland

Flutnm. (Guðm. Björnson) :

Þegar það kom til tals í dýrtíðarnefndinni, að leggja gjöld á innlendar afurðir, þá hjelt jeg því fram, að jeg gæti því að eins verið slíku fylgjandi, að jafnhliða væri að nokkru ljett þeim skatti af þjóðinni, sem jeg tel ranglátastan, það er að segja tolli á lífsnauðsynjum almennings. Því bar jeg frv. þetta fram hjer í deild, þegar jeg vissi að fram kom í háttv. Nd. frv. um hátt útflutningsgjald á landsafurðum vorum. Nú er þessu máli snúið svo, að í háttv. Nd. hefir að vísu verið samþyktur dálítill verðhækkunarskattur á útfluttar landsafurðir; en hann nemur svo litlu, að ekki getur komið til mála, að rýra að neinu leyti tekjur landsins hans vegna. Jeg hefi haldið fram, og jeg held enn fram þeirri rjettlátu breytingu á skattalöggjöfinni, að ljett sje tollum á þeim lífsnauðsynjum, sem fátækir þurfa jafnt að afla sjer sem ríkir, svo sem er um sykur. Þessu hefi jeg haldið fram, og því mun jeg halda fram meðan jeg lifi. Jeg fullyrði það, að það sje bæði holl og rjettlát breyting á skattalöggjöfinni, að gjald sje lagt á útfluttar afurðir fram yfir það, sem nú er, en ljett á innfluttum lífsnauðsynjum, því að þeir tollar eru beinn nefskattur og því ranglátur, en af útflutningsgjaldinu greiða þeir mest, sem mest flytja út.

En eins og nú er málum komið, er ekki til neins að tala frekar um þetta á þessu þingi; það verður að bíða síðari og betri tíma.

Tek jeg því aftur þetta frv. og hið næsta á dagskránni um breytingu á vörutolli. Frv. þar með tekið aftur.