22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

20. mál, stjórnarskrármálið

Flutnm. (Jón Þorkelsson):

Jeg mun verða fáorður um þessa till., enda hygg jeg að flestir hafi fengið fullnóg af ærnum þvættituggum um þetta mál. En nokkur orð verð jeg þó að láta fylgja till. úr hlaði.

Það var fyrst 1903, að uppburður íslenskra mála fyrir konung var gjörður að sjermáli, með því að taka ríkisráðsákvæðið inn í stjórnarskrána, eða svo hefir Alþingi viljað líta á það mál. 1911, var svo ríkisráðsákvæðið aftur felt úr stjórnarskrárfrumvarpi því, — til reynslu, — er þá var samþ. á þinginu, en þá komu þau skilaboð frá konungi — að vísu munnleg með þávarandi ráðherra, en ekki skjalleg —, að stjórnarskráin yrði ekki staðfest, nema ákvæðið væri sett inn aftur. Al- þingi 1913 greip þá til þess þjóðráðs, að mæla svo fyrir, að málin skyldu borin upp „þar sem konungur ákvæði“, og hugðu menn nú að hlýða mundi. En sú varð þó ekki raunin á, því að enn varð hlykkur á, þegar konungur ljet svo ummælt 20. okt. 1913, að hann mundi ákveða, að málin skyldu borin upp í ríkisráði, eins og hingað til, og skyldi sú skipan haldast, þangað til ný sambandslög yrðu sett og samþykt af ríkisþingi Dana og Alþingi Íslendinga. Nú leist mönnum ekki á blikuna, því að hjer með var rjettur Íslendinga, til þess að ákveða einir um uppburð sjermálanna, numinn úr höndum þeirra, og þá kemur fyrirvarinn til sögunnar. Eftir allmikið þjark varð það ofan á, að Alþingi 1914 samþykti stjórnarskrána aftur óbreytta, en ljet fyrirvara fylgja samþykktinni. Jeg hefi litið svo á, að í fyrirvaranum hafi falist það, að sjermálin skyldu hjer eftir sem hingað til borin upp í ríkisráði, en hitt vera áskilið, að uppburður þeirra væri sjermál vort. Um þetta skyldi gefa út íslenskan konungsúrskurð, en hin danska auglýsing, sem ráðgjörð hafði verið, skyldi falla úr sögunni.

Jeg get nú ekki betur sjeð, en að ráðherra hafi fengið fyrirvaranum fullnægt í öllum greinum, og meira en það. Það er meira að segja einnig uppfyltur hinn svo nefndi Hvannárfyrirvari, svo að nú þarf enginn að óttast, að ný sambandsnefnd verði skipuð af konungi, og sett einhver, okkur meira eða minna ógeðfeld og óhagfeld sambandslög, en við því mátti búast samkvæmt orðum konungs 20. okt. 1913. Nú bólar hvergi á þessu. Sá áskilnaður er fallinn niður. — Konungur sjálfur hefir með eigin hendi undirskrifað sitt eigið nafn og samþykki á sjálfan fyrirvarann með samþykki sínu á tillögum ráðherrans. En þó að nú ráðherra hefði ekki fengið fyrirvaranum fullnægt, þá get jeg ekki betur sjeð en að Alþingi og Íslendingar stæðu eftir sem áður með óbundnar hendur. Með fyrirvaranum vildi Alþingi, að mjer skilst, að eins geyma rjett sinn og þjóðarinnar, og þeim vilja Alþingis getur enginn ráðherra á nokkurn hátt hnekt eða gjört hann að engu. En nú þarf ekki slíkt að ræða, þar sem ráðherra hefir að öllu leyti fengið vilja Alþingis framgengt. Honum ber því fylsta traust og þökk þings og þjóðar fyrir aðgjörðir sínar í þessu máli.

Margt hefir verið talað um umræðurnar í ríkisráði, en ekki get jeg sjéð, að það skraf skuldbindi okkur á nokkurn hátt. Það getur ekki rýrt rjett Íslands, þótt danskur ráðherra vilji mæla sjer rjett yfir íslensku máli, þegar sú ásælni hans mætir jafnharðan eindregnum og ugglausum mótmælum Íslandsráðherra. Jeg hygg gagns- laust að fara hjer að eltast við alt það, sem sagt hefir verið um umræður þessar, enda hefir ráðherra svo rækilega skýrt það mál, að flestum er trúandi til þess að hafa nú áttað sig á því.

Margir hafa talið það galla á gjöf Njarðar, að sú skipan, sem nú er gjörð á uppburði sjermálanna, á að haldast um æfidaga þess konungs, sem nú er. En þess er þó að gæta, að heimilt er að setja ríkisráðsákvæðið, sem nú er, aftur inn í stjórnarskrána, og má nú hver, sem vill og ekki fellir sig við það, sem orðið er, fara að fitja upp á þeirri pólitík. — Þá hafa sumir sett það fyrir sig, að aðferðin hafi ekki verið sem heppilegust, þegar ráðherra tók við stjórn, og hafa menn út af því verið að spjalla um utanstefningar og hitt og þetta dót annað. En jeg sje nú meiri missmíði á mörgu öðru en síðustu ráðherraútnefningu. Sá, er áður fór með völd, var orðinn missáttur við konung og hafði kastað í hann búrlyklinum. Konungur var því blátt áfram bæði neyddur og skyldugur til að fá sjer nýjan ráðherra, og það er einkarjettur konungs, að velja ráðherra sína sjálfur. Þetta gjörði hann, og gjörði það lögum samkvæmt. Það kann að vísu að geta verið hentugt, þegar svo ber undir, að ráðherraskifti verða að vera milli þinga, að þingmenn geti þá talað sig saman, þótt konung reki hins vegar engin lagaskylda til að taka neitt tillit til annars í því efni en sins eigin vilja, enda ætla jeg það sje hvergi venja í þingræðislöndum, að kalla saman þing, þó að ráðherraskifti verði, og kostnaðarsöm mundi sú ráðabreytni hafa orðið hjer, og vafalaust lítt þokkuð af öllum landslýð. Hins vegar gat ráðherra kynt sjer svo vel vilja þingmanna, hvers í sínu lagi, að hann gat gjört sjer nokkurn veginn ljósa hugmynd um þingfylgi sitt. Og það hygg jeg, að muni koma í ljós hjer í deildinni, ekki síður en í háttv. Nd., að ráðherra hefir ekki farið hjer villur vegarins.

Það er ætlan mín, að hæstv. ráðherra hafi nú þegar hlotið traust, og muni hljóta hljóta þakklæti alls meginþorra þjóðarinnar fyrir góða framgöngu sína í þessu máli. Lengi höfðu margir látið hátt um það, að lífsnauðsyn væri á því, að fá stjórnarskrána staðfesta, einkum vegna rýmkunar kosningarrjettarins. Sumum var nú raunar óljóst, hvort hjer fylgdi hugur máli, sjerstaklega að því, er til kvenþjóðarinnarkom. Bæði voru skiftar skoðanir um það, hver nauðsyn væri á því, að konur færu að taka þátt í pólitík, og svo var mönnum ekki fullljóst, hvort þær í heild sinni kærðu sig svo mikið um það sjálfar. En hinn 7. þ. m. gátu allir sjeð það gleraugnalaust, að þetta var konum hin fylsta alvara. Mönnum mun það ekki úr minni liðið, að þá gengu hjer prúðar hefðarkonur af hendi kvenna á fund Alþingis, til að votta þingheimi þökk fyrir rjettindi þau, er nú voru konum veitt. Og meðal þessara sendifulltrúa kvenna voru að vísu konur, sem annars hafa aldrei verið að því kunnar, að gefa sig að neinni pilsapólitík. Svo var og um kvennaskarann á Austurvelli, að þar voru margar slíkar konur. Jeg hygg því, að háttv. Ed. þurfi ekki að hika við að samþykkja till. þá, sem nú liggur fyrir, því að bæði er það, að hjer hefir verið vel ráðið fram úr miklu vandamáli, og svo hitt, að ráðherra sá, er nú höfum vjer fengið, og auðnast hefir að koma þessu máli svona heppilega fram, er maður vitur og hálærður og svo dæmafár dugnaðarmaður, sem allir vita. Og hvað er svo að athuga við þetta alt saman?