27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

10. mál, skipaveðlán h.f. Eimskipafélags Íslands

Flutnm. (Benedikt Sveinsson):

Þetta frv. er borið hjer fram samkvæmt beiðni Eimskipafjelags Íslands. Ástæðurnar til þess, að það er framkomið nú, hirði jeg ekki að nefna hjer, því að þær eru prentaðar á þingskjali 10, Jeg skal að eins geta þess, að hjer er ekki að ræða um neina nýja ábyrgð fyrir landssjóð, heldur að eins um það, að fá heimildarlögunum svo breytt, að ef þörf gerist, megi flytja lánið hingað heim til íslensku bankanna.

Jeg skal taka það fram, að það er ritvilla þar sem stendur í frv., að fjárhæðin sje 500 þús. kr. Það á að vera 600 þús. kr. Flutningsmennirnir munu því að sjálfsögðu koma fram með brtt. um þetta efni við næstu umr.

Jeg vil leggja til, að málinu sje vísað til fjárhagsnefndarinnar.