06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

27. mál, strandferðaskip

Einar Jónsson:

Jeg vildi lýsa yfir þakklæti mínu til nefndarinnar fyrir frv. það, sem hjer liggur fyrir. Jeg hafði hugsað mjer, að þetta mál væri eitt af þeim, sem nauðsynlega þyrfti að ræða og ráða til lykta af þinginu. En þar eð jeg hygg, að háttv. deild muni samþykkja frv., tel jeg tilgangslaust að eyða tímanum í þjark um einstaka víkur eða voga, og vil ætlast til, að háttv. þm. láti sjer lynda í þetta sinn, þótt smáum og illfærum lendingarstöðum sje slept. Jeg gæti vitnað í löggilta verslunarstaði í Rangárvallasýslu, sem ekki hafa verið teknir með á áætlun, en dettur ekki í hug, að ætlast til, að þeir sje teknir með nú. Jeg sje, að Stokkseyri er tekin upp, en Eyrarbakki ekki, enda er ekki brýn þörf á því, að skipið komi á báða þá staði; þeir liggja svo nálægt hvor öðrum, að það verður að nægja, ef skipið kemur á annan þeirra. Jeg gæti til dæmis nefnt staði, eins og Hallgeirsey, Holtsós og Jökulsárós, en dettur ekki í hug að fara fram á, að skipið komi við á þessum stöðum. Jeg vildi sem sagt óska, að háttv. þm. færu ekki að telja upp hverja vík og vog, sem þeim kann að detta í hug, og gjöra það að kappsmáli, að fá slíkt inn á áætlunina.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) var óánægður yfir því, að grípa til afbrigða frá þingsköpunum. En menn hljóta að sjá, að þar sem svo langt er liðið á þingtímann, verður að flýta afgreiðslu málanna sem mest, og því verður að fara með flest þeirra með afbrigðum frá þingsköpunum. Lít jeg svo á, sem ekki sje aðrir þingmenn notandi en þeir, sem eru svo skynsamir menn, að geta áttað sig á málunum á skömmum tíma, þegar þeir lengi eru búnir að hafa þau til athugunar, og sætt sig við afbrigði. Það mun tilætlunin, að þingi verði slitið 10. þ. m., svo að þingmenn af Norður- og Austurlandi geti fengið skipsferð heim. Verður því að nota tímann vel.

Sem sagt er jeg nefndinni þakklátur og óska þess, að háttv. þm. eyði ekki tímanum í lítilsvert þref um smáa og lítilsverða viðkomustaði, sem kjósendum kynni að detta í hug. (Hákon Kristófersson: Þetta var þingmaðurinn búinn að segja áður). Háttv. þm. Barð. (H. K.) hefir gott af að heyra það aftur; hann er ekki svo eftirtektarsamur.