11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

48. mál, afnám laga

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi verið í vafa um, hvort jeg ætti að taka þetta mál í alvöru, og leggja orð í belg um það. Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem þegar hefir verið tekið fram af mótstöðumönnum frv. Háttv. flutnm. (B. J.) sagði, að lög þessi væri viðurkend ranglát, bæði af þingi og þjóð. Vilji þingsins í þessu efni mun brátt koma í ljós, og þarf því ekki að þræta um hann. Meðal þjóðarinnar er jeg miklu kunnugri. (Bjarni Jónsson: Þingmaðurinn þekkir miklu færri en jeg). Jeg er miklu kunnugri framleiðendum og bændum en háttv. flutnm., þm. Dala. Jeg býst við, að hv. deildin trúi því. Hv. flutnm. sagði lögin samin í hugsunarleysi. Þetta er dómur um síðasta þing, sem sýnir ekki mikla virðingu fyrir Alþingi. Jeg býst við, ef sá dómur verður samþyktur í atkvæðagreiðslunni um þetta mál, að þá verði svipaður dómur um þetta þing síðarmeir samþyktur með öllum atkvæðum. Jeg skyldi hv. flutnm. (B. J.) svo, að fjeð, sem fæst með tolli þessum, væri óþarft fyrir landssjóð. Jeg held að þetta sje áframhald af röksemdum flutningsmanns, sem sje áframhald af fjarstæðum, því þótt vjer kynnum að eiga eina miljón síðan í fyrra, þá sje jeg ekki, að hægt sje að telja slíkt óþarft. Um það ætla jeg ekki að þræta við neinn, en hitt tel jeg óvíst, að vjer eigum eina miljón kr. eftir þau tvö ár, sem skatturinn er búinn að standa.

Þm. (B. J.) vjek því að fjárhagsnefndinni, að hún hefði ekki birt álit sitt fyr en nú á fundinum. Get jeg svarað því, að háttv. þm. ætti ekki að hafa þurft þess; hann getur haft aðgang að öllum plöggum nefndarinnar, þar sem hann er sjálfur einn í fjárveitinganefnd.

Þm. kallar þetta óþarfaskatt. En það geta allir sjeð, að landssjóður þarf nú á peningum að halda, þegar búið er að samþykkja kaup á skipum (eða skipi), vörum og auk þess styrk handa fátæklingunum (Bjarni Jónsson: Hvenær?) Sumt er þegar samþykt og sumt er nú á döfinni. Mjer skildist á þm. að skipakaup ættu að fara fram fyrir landsfje. Ef svo er, skyldi þá ekki vera betra, að eiga eitthvað til í landssjóði, ef skip kynnu að falla úr þrem miljónum niður í eina, að ófriðum loknum?

Þó þótti mjer það undarlegast af öllu, sem flm. (B. J.) hjelt fram, er hann taldi það ranglátt, að þessi skattur kæmi niður að eins á þessum tveim stjettum, stjettunum, sem framleiða vöruna, sem tolluð er. Ef ranglátt er að framleiðslutollur komi niður á framleiðendum sjálfum, veit jeg ekki hvar hann kemur maklega niður. Það skyldi þá vera á þeim, sem ekkert framleiða, þeim sömu, sem nýlega var verið að veita dýrtíðaruppbót? (Bjarni Jónsson: Fyndinn!) Og ef trúa má háttv. þm. Dala. (B. J.) um kjör framleiðenda, þá veitti víst alls ekki af að veita þeim einhver hlunnindi, sem tækjust þá að sjálfsögðu af dýrtíðaruppbót embættislýðsins, og mætti þá hæglega hafa þau svo há, að aldrei þyrfti að borga út neina dýrtíðaruppbót (Bjarni Jónsson: Fyndinn!).

Sannast að segja tekur þetta frv. varla tali. Því er kastað inn í þingið 10. janúar, síðasta daginn, sem þingið átti að standa eftir fyrstu framlengingu þingtímans. Er það víst inn á þing komið mestmegnis til þess, að háttv. þm. Dala. (B. J.) fái tækifæri til að tala um það. (Bjarni Jónsson: Og hlusta á læriföðurinn). Sýnist mjer það ekki þess vert, að það sje sett í nefnd.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg læt hjer með útrætt um þetta mál, og ætla mjer ekki að svara háttv. þm. Dala. (B. J.), hvað sem hann kann að segja.

Þegar hjer var komið, kom fram beiðni um, að umræðum skyldi lokið, frá

Jörundi Brynjólfssyni,

Hákoni Kristóferssyni,

Sveini Ólafssyni, Birni Stefánssyni,

Einari Árnasyni og

Þorsteini Jónssyni.

Bar forseti tillöguna undir atkv., og var hún feld með 11:11 atkv. að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

já:

Björn Stefánsson,

Einar Arnórsson,

Einar Árnason,

Einar Jónsson,

Hákon Kristóferss.,

Jörundur Brynjólfss.,

Magnús Guðmundss.,

Pjetur Jónsson,

Stefán Stefánsson,

Sveinn Ólafsson,

Þorsteinn Jónsson.

nei:

Gísli Sveinsson,

Matthías Ólafsson,

Pjetur Ottesen,

Pjetur Þórðarson,

Sigurður Sigurðss.,

Skúli Thoroddsen,

Þórarinn Jónsson,

Benedikt Sveinsson,

Bjarni Jónsson,

Björn Kristjánsson,

Ólafur Briem.

Fjórir þingmenn fjarstaddir.