11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

48. mál, afnám laga

Björn Stefánsson:

Jeg skal ekki vera margorður um þetta mál, sem jeg var svo frekur, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) komst að orði, að gjöra mitt til með atkvæði mínu, að ekki yrði tekið til greina.

Það hefir greinilega komið fram á þessu þingi, að þarfir vorar eru margar, sem vjer þurfum fje til, um fram þær, sem gjört var ráð fyrir í þeim fjárlögum, sem nú gilda, en mest var jeg þó hissa á því, að háttv. þm. Dala. (B. J.) skyldi bera það fram, eftir að hafa heyrt þær ræður, sem hann hjelt hjer í gær.

Í gær var hann einmitt að ráðstafa þeim tekjum, sem landssjóður fær með lögum þessum.

Hann hjelt því fast fram, að þessi verðhækkunarskattur hefði einmitt verið samþyktur til þess að geta bætt kjör embættismanna og annarra þeirra landsmanna, sem verst verða úti vegna dýrtíðarinnar, og því væri sjálfsagt, að verja þeim til þess.

Nú er búið að samþykkja hjer í deildinni dýrtíðaruppbót til flestra þessara manna, en svo vill háttv. þm. Dala. (B. J.) að því búnu afnema þann tekjustofn landssjóðs, sem hann einmitt ætlast til, að varið sje til þess að bera þessi útgjöld.

Jeg get búist við því, að háttv. þm. svari mjer því, að þessi dýrtíðaruppbót sje ekki samþykt nema fyrir 1916, og að landssjóður sje búinn að hafa þær tekjur yfir það ár, en nú er ekki annað sjáanlegt, en að dýrtíðin haldi áfram, og jeg get ekki getið mjer annars til, en að báttv. þm. Dala. (B. J.) verði á næsta þingi meðmæltur því, að dýrtíðaruppbót verði veitt einnig fyrir þetta nýbyrjaða ár.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir oft vikið að því, að landssjóður væri sá, er gæti borið afleiðingar dýrtíðarinnar, en jeg fæ ekki skilið, að hann verði lengi fær um það, ef farið verður langt á þá braut, að afnema tekjustofna hans jafnhliða því, sem útgjöldin eru aukin.

Reyndar getur það dugað um stund með lántökum.