12.01.1917
Neðri deild: 25. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

48. mál, afnám laga

Bjarni Jónsson:

Jeg er þakklátur háttv. landbúnaðarnefnd, að hún hefir tekið svo nærri sjer nú, að hún hefir skrifað þetta nefndarálit á svona stuttum tíma, þar sem hún hefir nú tvisvar komið fram með munnleg nefndarálit.

Jeg verð þá að láta þakklæti mitt sjást í því, að segja nokkur orð til viðurkenningar fyrir þessa ritsmíð nefndarinnar. Þar er þá fyrst til að taka, að hún er svo einurðargóð, að hún setur í þingtíðindin, að þm. setji mál í nefnd til þess að svæfa þau. Slíka einurð við Alþingi hefi jeg eigi þekt fyrr. En mikil er vinsemd nefndarinnar við mig, er hún metur minn vilja meira en þenna þingvilja, sem hún segir oss frá. Þá vill nefndin eigi, að málið gangi fram á þessu þingi, en hún er eigi allskostar fráhverf því, að það gangi fram á næsta þingi — eða um það leyti, sem lögin ganga úr gildi eftir eigin ákvæðum sínum. En um leið gjörir hún það, er menn varði síst, að hún gefur háttv. fjárhagsnefnd óþægilegt olnbogaskot. Þetta mætti ef til vill gjöra, segir hún, þegar fjárhagur landsins verður rækilega athugaður. Hún segir með öðrum orðum, að fjárhagsnefnd þessa þings hafi eigi athugað fjárhag landsins, sem henni bar þó skylda til. En svo er nú fyrir þakkandi, að jeg get frætt nefndina um hag landssjóðs, og hefi jeg það eftir mönnum, sem miklu betur vita en fjárhagsnefndin. Nú á hann 800.000 kr. umfram þörf, og er því óþarfi að óttast um hag hans, þótt nú væri hætt að taka þenna rangláta toll. Þá segir nefndin enn, að tollur þessi sje ekki þungbær. En hvaðan kemur henni sú viska? Veit ekki landbúnaðarnefndin, að 1916 hefir búskapur tæplega borið sig, og getur því eigi þolað óþarfar álögur? Þá segir hún og, að tollur þessi hafi eigi verið óvinsæll. En jeg vil ráða henni til að leggja betur við hlustirnar, þegar hún kemur heim til kjósanda sinna nú.

Það sem hjer vantar á viðurkenninguna á starfi þessarar nefndar, vona jeg, að hún fái á sínum tíma hjá kjósendum.

Jeg held því enn fram, að ranglátur skattur sje ekki rjettur grundvöllut undir tekjum landssjóðs. Treysti jeg líka hæstv. stjórn vel til þess, að undirbúa sæmileg fjárlög undir næsta þing, svo efnahag landssjóðs yrði borgið, þótt afnuminn væri skattur þessi. Mundi því þinginu óhætt að kasta áhyggjum sínum upp á hana í því efni. Sömuleiðis get jeg trúað henni til að leggja hæfilegan skatt, bæði á þessa tvo atvinnuvegi og aðra.

Þá vil jeg enn láta afnema lög þessi, vegna þess, að ástæður þær, er voru til þess, að þau voru sett, eru nú með öllu horfnar, þar sem kostnaður við alla framleiðslu hefir stigið svo gífurlega, að framleiðsla er viða orðin til skaða en ekki ábata.

Það mun öllum kunnugt, að landbúnaðurinn hefir árið 1916 ekki gjört meira en halda við, tollalaust.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira, en bið hæstv. forseta, að viðhafa nafnakall um frv. Þakka jeg honum, að hann veitti mjer tækifæri til að koma málinu undir atkvæðagreiðslu, svo að ekki gekk fram sá ásetningur, að launmyrða það.