10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Einar Arnórsson:

Jeg býst við því, að það gæti dregið óþægilegan dilk á eftir sjer fyrir oss, ef vjer legðum á þennan skatt í sambandi við verðlaun þau, sem farið er fram á í öðru frv., sem hjer liggur einnig fyrir. Jeg tel það alveg vafalaust, að útlendingar þeir, sem hjer eiga hlut að máli, mundu líta á það sem fjandskap vorn til þeirra, ef vjer gjörðum það. Þeir mundu leita til þess einhverra bragða, að fá oss til þess, að ljetta honum af aftur og ekki víst, að þau ráð, sem þeir kynnu að finna til þess, yrðu oss sjerlega hagfeld.

Jeg veit það dálítið af eigin reynslu, hvernig önnur ríki mundu líta á þann toll, sem ætlast er til, að nú verði á þau lagður. Það gæti orðið oss erfitt ef t. d. Noregur og Svíþjóð bönnuðu útflutning á tunnum frá sjer. Auk tunnanna, sem vjer höfum fengið allar þaðan, þá fáum vjer þaðan líka, beint eða óbeint, hjer um bil alt það timbur, sem vjer þurfum að nota; ekki mættum vjer vel vera án þess. Og síðast en ekki síst er þess að geta, að annað þessara ríkja leggur til mjög mikinn hlut þeirra skipa, sem ganga nú um höfin í þágu verslunar og siglinga.

Auðvitað má segja það, að þetta mál komi mjer ekki við, nema sem hverjum öðrum þm., en einhver verður að benda á, að þetta frv. er ekki eins saklaust og það í fljótu bragði virðist vera.

Það er ekki langt síðan, að ekki ósvipað mál og þetta var á döfinni hjer hjá oss. Það var árið 1912, þegar kolanefndin lagði það til, að útlendingum yrði selt 2 kr. hærra hvert tonn af kolum en Íslendingar áttu að fá þau. Þá koma fram alþjóðamótmæli gegn þessu. Það mun líka alment vera litið svo á í heiminum, að það sje ekki „fair“ politík, að reyna svona að græða á öðrum ríkjum. Það barst út í vor sem leið, að í ráði væri að leggja svona toll á útflutta síld. Þá vissi jeg til þess, að ráðandi menn norskir hugsuðu sjer að láta koma þar krók á móti bragði.

Menn mega ekki skilja orð mín svo, sem mjer sje það á móti skapi, ef vjer gætum haft upp nokkuð fje á þennan umtalaða hátt. Jeg vildi með þessum orðum einungis benda á það, að verið getur, að það sje landinu ekki með öllu hættulaust, ef þessum tolli, ásamt verðlaununum, verður nú dembt á. En ef til vill getur hæstv. stjórn gefið betri upplýsingar um þetta mál.