27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

13. mál, einkasala á steinolíu

Benedikt Sveinsson:

Það virðist hafa slegið óþarflega miklum ótta á háttv. þm. út af því, að frv. þetta er komið fram. Einkum hefir háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó) vaxið í augum, hve bráð háskalegt frv. væri, ef það næði fram að ganga. En jeg get hughreyst þessa menn með því, að lýsa yfir, að það var alls ekki tilætlan okkar flutningsmanna að farið yrði með málið af rasanda ráði, og hefði háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) getað sagt sjer það sjálfur, svo að óþarft var honum, að koma með slíkar aðdróttanir þegar við fyrstu umræðu málsins. Þingið á eftir að fjalla um málið, svo að fullyrðingar um, að landið kunni að verða olíulaust, vegna þeirra ráðstafana, sem í frv. felast, eru ekki annað en „grýlur“ til að hræða börn á.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó) fór mörgum orðum um það, hve mikinn þyrfti undirbúninginn, og er það engin ný uppgötvun. Það er einmitt þess vegna, að vjer vildum ekki láta málið liggja í þagnargildi til næsta þings. Ef aldrei er byrjar á undirbúningnum, þá mun verða lítið um framkvæmdirnar. Háttv. þm. lagði mikla áherslu á, að útvega þyrfti olíugeyma úr járni frá Ameríku, en ekki sje jeg, að svo brýn nauðsyn sje á járnhylkjum þessum, að eigi megi halda 1. umræðu um frv., áður en þau eru komin til landsins. Og þótt hagkvæmast sje að flytja olíu í hylkjaskipum og geyma hana í hylkjum í helstu kaupstöðum, þá vil jeg benda háttv. þm. á það, að þá tvo mannsaldra, sem steinolía hefir flutst hingað til landsins, veit jeg ekki til, að olían hafi verið flutt í járnhylkjum, heldur í tunnum. Ber ekki á öðru, en að danska steinolíueinokunarfjelagið hafi getað grætt sæmilega á olíuverslun sinni með þessari gömlu flutningsaðferð. Það er því líkt og að „byrja á neglunni“ að vera að hjala um það, að Íslendingar geti ekki hafið olíukaup fyr, en þeir hafi útvegað sjer járnhylki frá Vesturheimi, til þess að geyma hana í.

Hitt, að binda frestinn við 1. okt. 1917, er gjört að mestu af handa hófi, en vjer töldum sjálfsagt, að í lögunum stæði eitthvert tímatakmark, og settum það því í frv. En auðvitað var það tilætlun okkar, að þessu yrði breytt eftir því, sem þörf þætti til bera.

Við bjuggumst ekki við, að frv. þetta yrði samþykt óbreytt, heldur bárum við það fram til þess, að eitthvað yrði gjört, til þess að hnekkja þeirri einokun, sem nú er á steinolíu og verið hefir um nokkur ár til stórtjóns landi og lýð.

Ef til vill er mál þetta viðfangsmeira en svo, að því verði lokið á þessu þingi, en það ætti þó að greiða fyrir framkvæmdunum, og gefa þjóðinni kost á að athuga það til næsta þings, að það er nú borið fram í þinginu, og að því unnið eftir því, sem framast eru föng á.

Það hefir verið bent á það, í sambandi við þetta frv., að þing þetta starfi á óvanalegum tíma og óhentugt mundi, að sá tími yrði lengdur. Jeg get nú ekki sjeð, að lengja þurfi þingtímann, þótt mál þetta sje tekið fyrir, hefi heldur enga reglugjörð sjeð um það, hver mál megi taka hjer til meðferðar á þessu þingi. Það kveður meira að segja svo ramt að, að ekki eru enn farnar að heyrast ástæðurnar fyrir því, að aukaþing þetta befir verið kvatt saman, og því sýnist mjer, að menn hafi óbundnar hendur um það, hvaða mál þeir bera fram.

Þótt jeg sje annar flutningsmaður þessa frv., er jeg ósamþykkur einu atriði; það er í 5. gr., þar sem talað er tveggja aura toll á hvern lítra.

Fyrir mjer vakir ekki að afla landssjóði tekna með lagasetning þessari; hygg, að það yrði betur gjört með öðru móti. Liggur það í augum uppi, að gjald þetta mundi koma ójafnt niður. Tökum til dæmis tvö vjelbátafjelög. Annað aflar vel, en hitt illa. Hafa þó bæði eytt álíka miklu af olíu, og borga því bæði jafnmikinn toll. Allir sjá, að þetta er ranglátt. Útflutningsgjald af afla kemur langtum rjettara niður, því að gjaldið kemur niður á því, sem aflast, en af engum afla þarf engan skatt að gjalda.

Yfir höfuð er jeg ekki hlyntur einokun, en hjer stendur alveg sjerstaklega á, þar sem einokun hefir verið á steinolíu og er enn. Hjer er því að eins um það að ræða, að ná landinu úr einokunarklóm hins illræmda danska svíðingafjelags, sem að vísu er nú farið að kalla sig „íslenskt“, en er að engu íslenskara en áður, þótt það hafi fengið hjer nokkura „leppa“, til þess að koma okurklónum betur fyrir.

Býst jeg við, að einokun þessari verði ekki hrundið, nema með því móti, að krókur komi á móti bragði, svo að „landsverslun“ komi í staðinn.

Mjer er að mestu leyti sama til hvorrar nefndarinnar málinu verður vísað, tel þó heppilegra að vísa því til fjárhagsnefndar.