06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

34. mál, einkasala landssjóðs á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg er tillögunni algjörlega meðmæltur.og að jeg er þakklátur háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fyrir ágæta líkræðu yfir þessu einkasölufrv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Það hefir nú komið ljóst fram, að jeg hafði á rjettu að standa um daginn, er jeg talaði um þetta mál, því að háttv. fjárhagsnefnd hefir komist að alveg sömu niðurstöðu, sem jeg hjelt þá fram.

Jeg stóð einkum upp nú til þess að svara háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hann tróð á líki mínu, er þetta mál var hjer til umræðu síðast í deildinni, en sem betur fór var jeg ekki dauðari en svo, að jeg er nú risinn upp aftur. Hann bar mjer það á brýn, að jeg talaði á móti betri vitund í þessu máli. Þetta er ungæðisháttur af honum að bregða mönnum um slíkt, þótt þeir geti ekki verið á sama máli sem háttv. þm. Og jeg vil framvegis frábiðja mjer allar slíkar getsakir.

Jeg tala aldrei um nokkurt mál af því, að jeg sje þeim fjandsamlegur af persónulegum ástæðum; ef jeg er á móti þeim og tala móti þeim, þá gjöri jeg það til þess að sýna fram á þá annmarka, sem á þeim eru. Og um þetta mál er það að segja, að jeg vildi sýna fram á, að ókleift væri að koma því fram á þann hátt, sem háttv. þm. (J. B.) hafði hugsað sjer. Og nú hefi jeg dóm háttv. fjárhagsnefndar fyrir því, að jeg hafi haft á rjettu að standa.