29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Framsm. (Sveinn Ólafsson); Það er sjávarútvegsnefndin, sem ber fram tillögu þessa eftir ósk minni, til að gefa málinu meiri áherslu og betri byr. Í texta till. er það tekið fram, að hún sje komin fram í samræmi við þingsályktunartill. 1915. En sú till. var alment orðuð, og laut að rannsóknum hvervetna á landinu. Hefir enn ekkert verið gjört til framkvæmda í því efni, eða ekki er mjer kunnugt um að svo sje. Mjer hefir verið skýrt frá því, að stjórnin hafi fengið fyrirheit um hæfan mann til rannsóknanna frá norsku fjelagi hafnarverkfræðinga. Ekkert hefir þó enn úr framkvæmdum orðið, og mætti eftir atvikum vel við una, efrannsóknir fengjust á sumri komanda. En nú stendur sjerstaklega á, með svæði það, sem til er tekið í þessarri till., og af því að jeg býst ekki við, að hv. deild hafi gjört sjer ljóst, hvers vegna sá hluti landsins eigi að ganga fyrir, þá vil jeg fara nokkrum orðum um það, sem með því mælir.

Austfirðingar geta að eins stundað fiskveiðar á sumrum. Með þeim veiðitækjum, sem þeir hafa, er þeim ófært að liggja úti, bátarnir of litlir, og er því alt miðað við daglega sókn úr landi.

Á sviðinu frá Langanesi til Berufjarðar munu vera um 100 mótorbátar, sem fiskveiði stunda, og flestir 4—8 smálestir að stærð. Vertíð nær venjulega þar frá miðjum maí til októberloka. Á síðastliðnu ári mishepnaðist hún, svo að margir menn hafa skaðast á útgjörð sinni.

Kunnugir menn fullyrða, að 3—4 vikna úthald hjer við suðurströndina á vetrarvertíð jafngildi 3—4 mánuðum við austurland, eða með öðrum orðum, öll vertíðin þar ekki arðmeiri en lítill hluti vertíðar hjer.

Það skiftir því ekki litlu, að vjelbátaflotinn austfirski geti notað vetrarvertíðina sunnan Austurhorns.

Hjer er ekki um neitt smáræði að tala, og sjest það ljóst af því, að veiðifengur þessara 100 mótorbáta þar, mun vera því sem næst 2 miljónir kr. virði á sumarvertíðinni eystra og ætti því að geta tvöfaldast á mánaðartíma, ef eftiræskt hafnarbót fengist milli Berufjarðar og Skinneyjarhöfða.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta atriði málsins, sem sje þörfina á höfn; vona að það sje öllum ljóst, að hún er brýn, bæði fyrir Austfirðina og Skaftfellinga.

Jeg vil að eins minnast á það, að tilraunir hafa verið gjörðar um bátfiskiveiðar að vetri til, frá Berufirði og Fáskrúðsfirði. Að vísu hafa enn ekki orðið slys að því, en áhættumikil og djörf sókn er það um hávetur, enda fáir tekið hana upp.

Frá Fáskrúðsfirði eru um 15 mílur til fiskimiðanna við Vesturhorn, þar sem austurtakmörk vetrargöngunnar virðast oftast vera, en Stöðvarfjörður og Berufjörður, sem nær liggja fiskimiðunum, geta eigi talist öruggar hafnir; innsiglingarleið á Berufjörð t. d. tæpast fær nema í bjartviðri að degi til.

Benda má á staði, sem menn hafa helst augastað á til hafna, svo sem Papaós, Hvalneskrók og Hornvík, en þar sem til er ætlast, að lærður hafnarverkfræðingur komi til rannsókna, þá verður hans dómur auðvitað hæstur í þeim sökum. Má vera að Hornafjörður sjálfur sje líka heppilegur staður.

Þá hefir komið fram brtt. við tillögu þessa (þgskj. 25), sem fer fram á það, að bætt verði við Vík í Mýrdal eða Dyrhólaey; enn fremur viðaukatill. (þgskj. 34), sem bæta vill við Þaralátursfirði á Ströndum.

Till. þessar fara allar í sömu átt, og hefi jeg því ekkert móti þeim að mæla; þætti einmitt vænt um, að þeir staðir yrðu líka rannsakaðir, og tek því með ánægju á móti þessum till. Auðvitað mundi það verða landsjóði aukinn kostnaður, en hann er sá, sem skyldan fyrst og fremst hvílir á til fjárframlaga, enda mun hann fá sinn skerf af uppskerunni, ef einhver verður. Frá sjávarútveginum fljóta tekjur hans örast, og munu framvegis fljóta.

Jeg ætla svo ekki að segja fleira um þetta mál að sinni, en vil leyfa mjer, eftir bendingu hæstv. forseta, að mælast til þess, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.