05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

30. mál, lán til flóabáta

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Orsökin til þess, að þessi till. er fram komin, er sú, að samgöngumálanefndin leit svo á, að hún gæti ekki gengið frá starfi sínu, án þess að bæta á þann hátt, sem henni væri unt, úr brýnustu nauðsyn á samgöngunum. Hún taldi, að strandferðir með einungis einu skipi mundu verða ófullnægjandi.

Vjer leituðum álits stjórnar Eimskipafjelags Íslands um þetta mál, og ljet hún það í ljós við oss, að hún teldi mesta þörf á að bæta samgöngurnar um Húnaflóa og Austfirði. Auðvitað er það, að flutningaþörfin er eins mikil annars-staðar á landinu, en þar eru líka komnir flóabátar áður, eins og til dæmis hjer á Faxaflóa og Breiðafjörð.

Nefndinni var það ljóst, að flutningaþörfin var mjög mikil á Húnaflóa, bæði milli hafna á Húnaflóa og eins milli Húnaflóa og Ísafjarðar. Og einkum mun þörfin aukast nú á næstu árum, því nú eru að rísa upp miklar síldarstöðvar vestan megin flóans, á Ströndum.

Vjer gjörðum ráð fyrir því fyrst, að báturinn gengi að eins um flóann og til Ísafjarðar, en síðar höfum vjer komið oss saman um, að hann skuli einnig ganga til Skagafjarðar, og er það gjört í samráði við hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Auðvitað er það bundið því skilyrði, að hjeraðsstjórn Skagfirðinga taki þátt í kostnaðinum við kaup bátsins og rekstur. Vjer hugsuðum oss einnig, að hefði báturinn ekki nægan flutning milli þeirra hafna, sem honum væri sjerstaklega ætlað að fara á, þá væri hægt að senda hann til Akureyrar og Reykjavíkur stöku sinnum, en nefndin telur litlar líkur til, að það geti komið fyrir.

Nefndin hugsaði sjer, að heppilegast mundi vera, að fá bátinn leigðan, en hún telur litlar líkur til, að það takist.

Hvað Austfjarðabátnum viðvíkur, þá skal jeg taka það fram, að flutningaþörfin eystra er mjög mikil. Einkum er það á svæðinu milli Seyðisfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, því þar má heita að alt sumarið sje þörf á daglegum samgöngum. En líka er mjög mikil þörf á bættum samgöngum á svæðinu fyrir sunnan Fáskrúðsfjörð og eins fyrir norðan Seyðisfjörð. Á báðum þeim svæðum eru mjög fiskisælar veiðistöðvar. Ef vel væri,þá þyrfti þrjá flóabáta eða fjarðabáta við Austfirði. Einn á svæðinu sunnan við Fáskrúðsfjörð; annan frá Fáskrúðsfirði til Seyðisfjarðar, og þriðja fyrir norðan Seyðisfjörð. En nefndin leit svo á, að ekki kæmi til mála, að bæta úr nema allra brýnustu þörfinni, því eins og allir vita, eru tímarnir mjög örðugir.

Jeg býst við að heyra þau mótmæli frá sumum, að þetta fyrirkomulag um flóabáta komi í bág við fyrirhugað fyrirkomulag um tvö strandferðaskip. En nefndin lítur svo á, að þótt strandferðaskipin verði tvö, þá sje engin hætta á, að bátarnir hafi ekki nóg að starfa, því eins og öllum er kunnugt, þá eykst flutningaþörfin nú mjög ár frá ári.

Jeg vil að lokum taka það fram, að jeg tel sjálfsagt, að þingið veiti styrk til að gjöra út þessa báta.