09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

30. mál, lán til flóabáta

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Nefndin hefir athugað till. þær, sem fram hafa komið, en getur ekki lagt til, að breyta till. sinni á nokkurn hátt.

Það er athugavert við till. háttv. þm. Barðstrendinga (H. K.), að hana brestur eðlilega meðmæli fjárveitinganefndar, og sömuleiðis er oss eigi fullljóst, hver þörf er á, með því að flutningsþörfin virðist vera mjög lítil á þessum slóðum. En nefndin vill ekki fara lengra en veita styrk þar, sem um verulega flutningaþörf er að ræða.

Nefndin sá sjer ekki fært í þetta sinn að leggja til að veita styrk til Eyjafjarðarbátsins. Þar á móti get jeg ímyndað mjer, að á næsta þingi gangi styrkveitingin fram.

Um Austfjarðabátinn er það að segja, að nefndin ætlast til að farnar verði ferðir til Akureyrar í samráði við hjeraðsstjórnir norðursýslanna. Jeg býst þá við að jeg hafi ekki meira fram að taka um þetta mál. Nefndin hefir gengið eins langt og hún hefir sjeð sjer fært, en mun ekki sinna fleiri brtt., þó að nýjar till. komi fram í þessu máli.