11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

43. mál, skipagöngur sameinaða gufuskipafélagsins

Einar Arnórsson:

Háttv. frsm. (M. P.) hefir lýst máli þessu allrækilega og lýst ástæðum þeim, sem nú eru til þess, að sameinaða fjelagið þykist geta skoðað sig laust við samningana frá 1909. Hefir háttv. framsm. (M. P.) virt sumar þessar ástæður fjelagsins til vorkunnar, en álitamál þykir mjer, hvort svo beri að gjöra.

Fyrsta ástæðan var sú, að hætta væri á, að skipin yrðu hernumin og tafin, og ef til vill flutt inn í hafnir ófriðarlanda.

Þetta hefir nokkuð til síns máls, en þó er það ekki lögmæt ástæða, til þess að rifta samningum. Því sama má segja um öll skip, sem í siglingum eru nú á tímum, að ekki er hættulaust um, að þau verði tekin, en sú hætta er alls ekki meiri á siglingaleiðinni til Íslands en annarsstaðar.

Það má líka fullyrða, að minni hætta er á slíku fyrir þessi skip, sem fara eftir föstum áætlunum, heldur en önnur, sem fara áætlunarlaust og leita sjer farms, þar sem best gengur. Hefir reynslan sýnt að svo er.

Þetta getur því ekki talist annað en yfirdrepsástæða og furðar mig á, að háttv. frsm. (M. P.) skyldi telja hana fjelaginu til vorkunnar.

Önnur ástæðan var aukinn kostnaður. Rjett er það, að hann hefir aukist, og kemur það aðallega af stríðsvátryggingu á vörum og fólki. En sá kostnaðarauki fellur ekki fremur á þessa leið en aðrar siglingaleiðir. Slíkt á sjer einnig stað annarsstaðar, nema ef vera skyldi einna minst á siglingaleiðinni til Ameríku.

Verður þessi ástæða fjelagsins því of ljettvæg til samningsrofa.

Þriðja ástæðan, sem háttv. framsm. (M. P.) taldi vorkunnarmál, var það, hve vont væri að fá farm hjer. En þar við er eitt að athuga, sem hv. framsm. (M. P.) mintist ekki á og mig furðar á, að nefndin hefir ekki rekið augun í. Það er það, að fjelagið skiftir það mjög litlu máli, hvort skipin hafa mikinn eða lítinn farm hjeðan, því að það er arðvænlegra að hafa lítinn farm hjeðan til Englands og taka þar kol til flutnings til Danmerkur, því að það er mjer kunnugt um, að farmgjald á kolum frá Leith til Kaupmannahafnar er hærra heldur en farmgjald á vörum frá Íslandi til Kaupmannahafnar.

Er mjer kunnugt um það frá utanferðum mínum, að skipstjórar hafa ekki kært sig um farm hjeðan, ef þeir vissu af kolum til flutnings á Englandi. Skil jeg því ekki að fjelagið haldi því fram í fullri alvöru, að þetta atriði sje þungt á metunum.

Fjórða ástæðan var sú, að landstjórnin hjer styddi íslenska Eimskipafjelagið opinberlega, og væri það þó keppinautur sameinaða fjelagsins.

Sú ástæða er ef til vill hin veigamesta frá sjónarmiði sameinaða fjelagsins af þessum fjórum, þótt vjer Íslendingar getum ekki tekið hana til greina, þar sem vjer höfum, og eigum að hafa, algjörlega óbundnar hendur um það, hverja vjer styðjum til uppihalds samgangna hjer við land og milli landa.

Sameinaða fjelagið mun segja sem svo: „Við höfum ekkert á móti því, að hafa keppinaut, en við þolum ekki að hann sje studdur af því opinbera“. Þetta er mjög líkt og ummæli, sem komið hafa frá öðru dönsku stórgróðafjelaginu hjerna.

En hin sanna ástæða fjelagsins mun ekki vera nein af þessum fjórum, sem jeg nú hefi drepið á, heldur sú, að hægt er að sigla með meiri hagnaði áætlanalaust, Út frá þeirri ástæðu skilur maður vel, þegar fjelagið neitar að láta skip koma á vissar hafnir, en sendir þangað aukaskip í staðinn. Það er af þeirri einu ástæðu, að fjelagið græðir meira á þeim skipum.

Það hefir reynst mjög erfitt, og oft ómögulegt, að fá skip fjelagsins til þess að flytja vörur milli hafna á Íslandi eins og háttv. framsm. (M. P.) nefndi dæmi til. En mjer er kunnugt um fleiri dæmi þess, og skal jeg nefna eitt til árjettingar.

Fjelagið hefir neitað um það hjer, að flytja olíu hjeðan til Vestmannaeyja. Hafa menn fengið þau svör, að stjórn fjelagsins bannaði slíkt. Auðvitað mundi það kosta ofurlitlar tafir og getur því valdið lítilfjörlegu fjárhagslegu tjóni, þar sem skipin kosta svo að segja stórfje um hverja klukkustund.

Rekur því aftur að hinu sama, að aðalástæða fjelagsins er fjárhagslega atriðið.

Þótt þessar ástæður fjelagsins sje nú flestar veigalitlar, þá verður það ekki vitað að svo stöddu, hve mikið stjórnin hjer getur gjört til að rjetta hlut vorn. Þar sem fjelagið er útlent, er mun verra við að eiga og sjerstaklega þegar þess er gætt hvað vjer stöndum illa að vígi nú á þessum tímum. Ekki er heldur gott að segja, hvernig danskir dómstólar líta á þetta mál, en þar yrði auðvitað að dæma málið. Getur hugsast, að þeir líti öðrum augum á það en vjer.

Þá er og álitamál um skyldur fjelagsins við oss. Að vísu hefir þáverandi Íslandsráðherra skrifað undir samningin ásamt samgöngumálaráðherra Dana. Styrkur til fjelagsins er og veittur úr ríkissjóði.

Ekki veit jeg með vissu, hvernig Danastjórn unir við þetta mál. En líklegt er, að hún uni því vel, þar sem þegar hefir verið auglýst í blöðunum, að farmgjaldaskrám fjelagsins hafi verið breytt og er það sjálfsagt gjört með samþykki hennar, sem veitir fjelaginu styrkinn.

Jeg tel að það gæti ekki skaðað, þótt kvartanir kæmu hjeðan yfir ráðstöfunum fjelagsins. Því að það er aðgætandi, að þeir eru margir, Danir, sem reka hjer verslun og þurfa því á góðsamgöngum að halda, þar sem þeir bæði senda hingað og fá hjeðan vörur.

Er það því bersýnilegt, að hagur Dana sjálfra skiftir hjer líka miklu máli.