10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal vera mjög stuttorður og eigi lengja umræður, sem þegar eru orðnar langar. Mjer þykir það næsta undarlegt hjá hv. framsm. (G. Sv.), að hann skuli ekki vilja skilja það, að það er einmitt sama „principið“, sem fyrir okkur vakir, og að peningarnir eru alveg eins góðir fyrir embættismanninn, hvort sem þeir koma úr landsjóði eða fyrir önnur störf. Þess vegna er bæði rjett og sanngjarnt, að dýrtíðaruppbót landssjóðs lækki eftir því, sem njótendur hennar hafa meiri tekjur utan embættis eða sýslunar.

Háttv. framsm. (G. Sv.) hjelt því fram, að brtt. mín, um einhleypt fólk, væri þýðingarlaus, því að svo sem ekkert væri af því fólki, tvent eða þrent, eða þar um bil á landinu, en þetta er algjörlega rangt. Jeg sjálfur þekki miklu fleira af einhleypu fólki, er dýrtíðaruppbót mundi fá. Nú skýtur háttv. 2. Árn. (E. A.) því að mjer, að mjög margir af þeim er uppbót fengu eftir dýrtíðaruppbótarlögunum frá 1915 hafi verið einhleypir, og ætti honum að vera þetta manna kunnugast. Samt verður miklu fleira af þess konar fólki, er uppbót mundi fá eftir till. nefndarinnar en eftir lögunum frá 1915. Það sýnist því vera lítil sannleikur eða sanngirni í því hjá háttv. framsm. (G. Sv.), að halda því fram, að þeir sem komi til álita í þessu efni, sje eigi nema 2—3.

Háttv. framsm. (G. Sv.) tók það fram, að ekki væri hægt að vita, hve miklar tekjur menn hefði fram yfir embættistekjur. Jú, embættismaðurinn á auðvitað að vita þetta og getur líka vitað það. Og jeg sje ekki, að það sje gjört neitt lítið úr æru manna og samvisku þótt þeim sje gjört að skyldu að skýra frá þessu að viðlögðum drengskap. Það er mjög títt í löggjöf vorri, að slíkt er heimtað, og hneykslast enginn á. Svo er t. d. sjerhver maður skyldur að gefa vottorð upp á æru og samvisku um meðteknar tollvörur frá útlöndum, jafnvel þótt eigi sje nema t. d. einn vindlakassi. Þar er gefið æru og samviskuvottorð um 2—3 króna virði, og hneykslast enginn á. En samt þykir háttv. framsm. (G. Sv.) þetta óþarft, er um dýrtíðaruppbót er að ræða, sem þó nemur ólíkt meiru. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt lítillækkandi fyrir neinn, að gefa slíkt vottorð um tekjur sínar. Virðist mjer háttv. framsm. vera í þessu efni alt of hörundssár fyrir hönd embættismannanna. Það vakir fyrir mjer að lækka að miklum mun dýrtíðaruppbótina, og einn liðurinn í þeirri tilraun eru einmitt þessi vottorð. Þau mundu verða til þess, að svifta stórríka menn alveg dýrtíðaruppbótinni, og þetta er einmitt tilgangur minn, því að hvers vegna á landssjóður að vera að gjalda þeim mönnum dýrtíðaruppbót, sem hafa mörg þúsund krónur í tekjur, hvaðan svo sem þessar tekjur eru komnar? Þetta viðurkennir nú háttv. fjárveitinganefnd, að því er snertir háttlaunaða embættismenn, en ef tekjurnar eru ekki af embætti eða sýslan, þótt jafnháar sje, rís hún öndverð gegn því, að neita um dýrtíðaruppbót, alveg eins og það sje ekki sama, þegar um dýrtíðarhjálp er að ræða, hvaðan peningarnir koma. Það fæst jafnmikið fyrir krónuna, hvort sem hennar er aflað með vinnu í landssjóðs þarfir eða ekki. Þetta hlýtur háttv. nefnd að skilja, þótt hún breyti ekki eftir því. Það er því vafalaust, að brtt. mín miðar að því, að auka jafnrjetti milli þeirra, sem eingöngu hafa tekjur úr landssjóði og þeirra, sem bæði hafa tekjur úr landssjóði og annarsstaðar að, og þar sem hún líka miðar að því, að færa stórum niður dýrtíðaruppbótarfúlguna, trúi jeg því ekki fyr en jeg tek á, að hún verði ekki samþykt hjer í háttv. deild.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) ljet í ljós óánægju sína yfir till. nefndarinnar, og er jeg honum þar samdóma. En hvers vegna hefir þessi háttv. þm. þá ekki komið fram með brtt. eða sjerstakt nefndarálit, fyrst hann átti sæti í nefndinni? Háttv. þm. svarar því, heyri jeg, að hann hafi verið veikur, en hann hefir þó verið hjer á fundi í allan dag, og hefði þá getað búið til brtt., eins og jeg og meðflutningsmenn mínir, því að við höfðum ekki nema eina klukkustund til þess að undirbúa brtt. okkar.