10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Það er sýnilega ekki til mikils, að deila við háttv. framsm. (G. Sv.), því að hann virðist skoða stöðu sína svo, sem hann sje einskonar hæstirjettur. Það eru þó nokkur atriði, sem jeg vildi minnast á. Háttv. framsm. (G. Sv.) sagði, að jeg hefði ta að um hitt og þetta, og alveg botnlaust. Jeg veit það vel, og kannast við það, að jeg talaði um fleira, en prósentur þær, er háttv. nefnd hefir stungið upp á, og jeg veit það líka vel, að margt af því, er jeg sagði, og sem alt var í sambandi við þetta mál, er ekki hans mál, svo að það er eðlilegt, að honum geðjist það ekki.

Jeg álít sjálfsagt, að veita dýrtíðaruppbót, og get gengið langt til samkomulags í málinu. Mjer er sagt, að Indriði skrifstofustjóri Einarsson hafi símað til allra embætismanna út um land, um það, að þeir bæðu um 70% dýrtíðaruppbót. Þetta álít jeg lengra gengið en góðu hófi gegnir. Mjer finst það eiga að vera metnaður fyrir menn út um land, er sitja að góðum búum, að vera ekki að seilast í þessa dýrtíðaruppbót.

Jeg get ekki skilið það, að nein skepna hræðist meir rauða dulu en hv. frsm. (G. Sv.) hræðist þessa brtt. Og hlýtur það að koma af því, að hann með sjálfum sjer viðurkennir þann sannleika, að þeir, sem búa í kaupstöðum, eigi að fá hærri dýrtíðaruppbót en hinir, sem til sveita búa.