10.01.1917
Neðri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg tel óþarft að ræða þetta mál meir. Allir hafa víst tekið afstöðu til þess. Jeg skal einungis minnast á þær brtt., sem fram eru komnar.

Það er þá fyrst þessi afturgöngutillaga, sem feld var frá afbrigðum við fyrri umræðu þessa máls, sem sje brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) o. fl. (135). Þessi tillaga er algjörð umsteypa á öllu því verki, sem nefndin hefir unnið. Hún getur því ekki komið til neinna mála. Það tekur engu tali, að hún verði samþykt. Það hlýtur að vera sprottið af gáleysi flutningsmanna, að hún hefir nokkurn tíma komið fram.

Öðru máli gegnir með till. háttv.þm. S.-Þ. (P. J.) (136). Nefndin mun fallast á hana, því að hún er mjög sanngjörn. Hámarkið er hækkað upp í 2.000 úr 1.500 kr., í innskotstill., sem samþ. var við fyrri umr., það er að segja, þeir sem hafa 2.000 kr. í tekjur, auk embættislaunanna, fá enga dýrtíðaruppbót. Þessi till. er því til bóta, eftir tilgangi nefndarinnar.