23.12.1916
Neðri deild: 5. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

9. mál, landssjóðsverslunin

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Að eins örfá orð.

Jeg er þakklátur hæstv. ráðherra (E. A.) fyrir að vera mjer samdóma um, að vísa málinu til nefndar. En jeg er ekki samþykkur honum í því, að ilt muni vera að koma tillögunni í framkvæmd. Jeg þekki svo mikið til verslunar, að jeg veit, að hægðarleikur er, að ákveða fyrirfram húsaleigu fyrir vörurnar, flutningskostnað og vinnulaun við merkingu o. s. frv.

Jeg vil ekki lengja umræður, vegna þess, að málið er í sjálfu sjer lítilfjörlegt. Jeg hefi fallist á, að málinu væri vísað til nefndar, og má þá búast við, að tillagan verði betur orðuð en nú, og betur en brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem líka má misskilja.