29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Þórarinn Jónsson:

Jeg er samþykkur því, að nefnd verði skipuð í málið. Það hefði verið gott áður en málinu var hreyft, að gögn hefðu verið athuguð, sem hjer að lúta, og nauðsynlegt er til samanburðar, að fá frá stjórninni skýrslu um úthlutun varanna, til þess að vita, í hve stórum stýl kaupin hafa verið gjörð o. s. frv. Hafði jeg farið fram á að fá útdrátt um þetta úr stjórnarráðinu, en hann er enn ekki gjörður, og tekur nokkurn tíma.

Ýmsir háttv. þm. hafa andmælt brtt. á þskj. 32, en ekki með nægum rökum, að því er mjer virðist.

Það hefir verið tekið fram af háttv. aðalflutnm. brtt. á þgskj. 32 (M. P.), hve varhugavert það væri, ef 2—4 menn stofnuðu fjelag til þess að kaupa vörur. Jeg sje ekki betur en að tilganginum sje borgið, með því, að gefa sveitarfjelögum kost á að kaupa vörur, og auðvitað koma þá bæjarstjórnir í þeirra stað, og sje jeg þess vegna ekki, að mönnum í bæjunum ætti að verða það erfiðara en út um land, að fá vöruna; en ef einstökum mönnum væri heimilt að kaupa, þá mundi af því leiða alt of mikið umstang, og engan veginn getur verið meiningin, að gjöra landssjóð að smásala.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) taldi enga örðugleika á því, að menn mynduðu ný verslunarfjelög. Það hefir engum dottið í hug, og til þess er engin ástæða, því sveitarfjelög, kaupfjelög og kaupmenn eiga að gjöra fult gagn. Það er þess vegna óþarft, að mörg slík fjelög mynduðust, enda ólíklegt, því að leyfi til verslunar þarf að kaupa; en þótt svo væri, þá kemur það ekki við brtt. okkar.