09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

35. mál, lán til garðræktar

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Þetta mál, eins og næsta hjer á undan á dagskránni (kolarannsókn), og fleiri mál, sem jeg hefi komið með á þessu þingi, heyra undir það, sem vjer nefnum stríðsráðstafanir. Jeg hafði áðan ástæðu til, að taka fram skoðun mína um það, hvernig jeg álít að stjórnin eigi að haga sjer gagnvart ófriðnum, og þeim ráðstöfunum, sem gjöra þarf hans vegna, og skal jeg ekki tala um það frekar nú. Þess vil jeg að eins geta, að vel getur svo farið, að Þjóðverjar leggi hafnbann á England, það er að segja herði nú á kafbátahernaðinum, svo að hafnbannið verði fullkomið, og því er enn meiri ástæða til fyrir oss en áður, að gjöra alt sem í voru valdi stendur til þess, að tryggja oss, ef slíkt ber að höndum. Það er engin minsta ástæða til þess, að hika við að kaupa skip, af því að vjer sjeum hræddir við að taka lán hjá erlendum þjóðum, því að stjórnin mun eiga hægt með að fá alla þá peninga, sem hún þarfnast til skipakaupa til láns, hjer á landi, og þótt menn yrðu svo heimskir, að vilja ekki lána stjórninni það fje, þá væri ekki annað en taka það fje með valdi, því ef slíkt gengur ekki á þessum tímum með góðu, þá verður að taka það með illu.

En færi nú svo, að samgöngur teptust, hvað væri þá sjálfsagðara, en að vjer reyndum að sjá um, að landið væri sem best birgt að þeim nauðsynjum, sem landsmenn geta sjálfir framleitt. Og þá sýnist mjer einsætt, að leggja aðaláhersluna á jarðarávexti. Þeir yrðu margfalt ódýrari, ef vjer framleiddum þá sjálfir, en þessir útlendu, sem vjer nú verðum að notast við, og auk þess eru þeir miklu betri. Það eitt, hve mikið er flutt inn af garðávöxtum, væri nóg til þess, að allir ættu að greiða atkvæði með þessari till. minni, því vitanlega væri oss í lófa lagið, að framleiða sjálfir alla þá jarðarávexti, sem vjer þörfnumst.

Nú hefði mjer þótt rjettast að skylda menn með lögum til að rækta matjurtir, en jeg bjóst við, að það mundi sæta mikilli mótspyrnu hjer í þinginu og hætti því við það. En aftur á móti hugði jeg, að það myndi verða mikil hvöt fyrir marga, ef þeir ættu kost á að fá lánað fje í þessu skyni, með góðum kjörum.

Jeg hefi hugsað mjer, að ekki skuli lánað til að koma upp minni garði en sem svarar 200 stikum. Slíkan garð mundi einn maður pæla á 3 dögum og girðingin í kringum hann, segja mjer fróðir menn, mundi kosta um 30 kr. og jafnvel minna. Auk þess yrði nauðsynlegt, að hafa vermireiti í sambandi við garðinn, til þess að ala þar á vorin upp plöntur af fræi. Þessir reitir eru ódýrir, nema hvað glugga þarf yfir þá, en þá mætti ef til vill komast af með ytri glugga af húsum, þar sem þeir eru til, en annars geta gluggalausir vermireitir líka gjört gagn. Nota mætti, sem.sagt, ytri glugga af húsum yfir slíka vermireiti; mundi það ekki breyta öðru en lagi vermireitanna. En það er öllum vitanlegt, að þeirra þarf með, þar sem garðrækt á að vera í góðu lagi.

Vildi jeg leggja til, að umsjón framkvæmdanna væri falin Einari Helgasyni garðyrkjumanni, því að hann veit jeg vera manna best til þess fallinn. Auðvitað stæði hann undir umsjón stjórnarinnar og nyti aðstoðar hennar.

Álít jeg hann líka vel til þess fallinn, að gefa út bæklinga mönnum til leiðbeiningar, og eins til að benda á þá staði, þar sem ekki er tiltækilegt að hafa garðrækt. Mundi hann eiga hægt með að ná til manna víðsvegar um land, þar sem svo margir úr öllum áttum hafa stundað garðyrkjunám hjá honum.

Sömuleiðis efast jeg ekki um, að Búnaðarfjelagið og búnaðarsamböndin úti um land mundu veita honum styrk til þessarra framkvæmda.

Framkvæmdirnar ættu því ekki aðallega að felast í fjárlánum úr landssjóði, heldur og hinu, að forstöðumaðurinn og búnaðarsamböndin hvettu menn til þess að auka garðræktina.

Fjárveitingarnar mundu verða svo litlar, að ekki finst mjer taka að bera þær undir fjárveitinganefnd.

Hygg jeg, ef rjettilega er að farið í máli þessu, þá muni það reynast, ekki að eins góð stríðsráðstöfun, heldur líka happadrjúgt í framtíðinni, því að þá myndi starfinu vera haldið áfram, og sú þraut vinnast, sem um meir en 100 ára skeið hefir reynst ofurefli, sem sje, að gjöra garðrækt almenna í landinu.