13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Jón Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að lýsa því yfir, að mjer líkar illa, hvernig mál þetta er nú komið. Hv. efri deild hefir skorið niður breytingu þá, sem hv. neðri deild hafði gjört álill. fjárveitinganefndar. Mjer líkaði ekki niðurstaða nefndarinnar, og get jeg því illa sætt mig við að samþykkja málið eins og það liggur nú fyrir. Jeg taldi ófært að veita öllum dýrtíðaruppbót, án undantekningar, því að jeg tel það enga undantekningu, þótt þeir sje undanskildir uppbót, sem hafa yfir 4.500 kr. laun. Það vakti fyrir mjer, að þeir eru margir, er lægri laun hafa, sem óþarft er að veita uppbót. Hafði jeg hugsað mjer, að töluvert mundi mega draga úr kostnaði þeim, er nefndin hafði lauslega gjört ráð fyrir. Jeg á erfitt með að ganga að því að samþykkja till. eins og hún liggur nú fyrir, þar sem hún er mjög gagnstæð því, er jeg hefði kosið. Jeg fyrir mitt leyti tel sjálfsagt að veita mörgum dýrtíðaruppbót, en þar verður að líta á allar ástæður. Jeg verð því að greiða atkv. móti málinu nú, en jeg gjöri hins vegar ráð fyrir, að málið geti komið fyrir aðalþing næsta sumar, og megi eins vel afgreiða það þá. Mjer finst það ekki úr vegi, að láta þjóðina segja álit sitt um málið. Margir segja, að krytur sje milli embættismanna og alþýðu í landinu, en það held jeg að sje rangt. Jeg býst við, að allur þorri þjóðarinnar vilji sinna öllum sanngjörnum kröfum um dýrtíðaruppbót handa embættismönnum. Það eru að eins einstakir menn, sem hafa horn í síðu embættismannastjettarinnar. Jeg býst sem sagt við, að landsmenn liti alment með sanngirni á málið. Öll sanngirni mælir með því, að ýmsir menn í landsins þjónustu hafi fullan rjett til uppbótar. En þar sem ástæður embættismanna eru svo misjafnar, er sjálfsagt að taka tillit til þess. Jeg held því fram, að till. þessi sje ekkert „princip“ í málinu, heldur sje hún vandræða-tillaga, sem ekki geti talist sú eina rjetta stefna í þessu máli.

Nefndin hefir sjálf játað, að eftir till. hennar sje embættismönnum ekki gjört jafnhátt undir höfði, heldur sje hafður mismunandi mælikvarði, og miðað við efni og ástæður. Þetta verður líka að gjöra. Vjer getum ekki leikið oss með fje landsins, og það er engin nauðsyn að veita þeim uppbót, er hafa góðar ástæður, og lifa góðu lífi þrátt fyrir stríðið og dýrtíðina, sem af því leiðir. Jeg þykist því í engu brjóta í bág við skoðun þá, er jeg hjelt fram í nefndinni, þótt jeg greiði atkvæði móti tillögunni. Það hefði verið annað mál, ef hv. Ed. hefði tekið tillit til viðaukatill, sem jeg taldi til bóta. En fyrst hún hefir sýnt þessa óbilgirni í málinu, get jeg ekki beygt mig.