12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Ráðherra Sigurður Jónsson:

Jeg get ekki sjeð, að þetta frumvarp fari neitt í bág við áhuga manna á að kaupa ný skip. En það þarf líka að gæta fengins fjár. Menn tala hjer um bann og höft og skaðsemi þeirra. Þessi takmörkun, sem frv. fer fram á, er ekki samanberandi við ýmislegt af svipuðu tagi, sem hlutlausar þjóðir sætta sig vel við á þessum tímum, og meira að segja, þetta aukaþing er þegar búið, nær því einróma, að fallast á að gjöra megi miklu meiri takmarkanir á vanalegri athafnastarfsemi og viðskiftafrelsi einstaklinganna. Í því efni má benda á þau höft, sem landsstjórninni er heimilað að leggja á verslunina í einstökum greinum og í heild sinni. En landinu er bráðnauðsynlegt, að halda sínum skipum, ef í nauðir ræki. Í 1. gr. frumvarpsins stendur: „Landsstjórnin getur veitt undanþágu frá banni þessu“. Hjer er það skýrt tekið fram, að landsstjórninni sje heimilt að gjöra undantekningar, að því er leigu eða sölu skipa snertir. Og hv. þm. Ísf. (M. T.) þarf varla að óttast, að stjórnin verði á móti sölu gamalla dalla, sem menn vildu losast við. Slíkur ótti lýsir að minsta kosti ekki því trausti á stjórninni, sem hv. þm. virðist bera til hennar í öðru orðinu.

Ef við samþykkjum ekki þetta frumvarp, getum við átt á hættu að missa miljónina, sem okkur langar alla svo mikið til að fá.