12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Eggert Pálsson):

Það hefir verið tekið fram, að tíminn sje orðinn stuttur og því eigi tök á löngum umræðum.

Jeg skal líka reyna að vera eins stuttorður og jeg get.

Það er meiri vandi en vegsemd að hafa í framsögu í þessu máli. Þar er maður staddur milli tveggja elda. Annars vegar er eldur kyntur af uppbótakröfum starfsmanna landssjóðs, sem að allra áliti eiga við mikil rök að styðjast, en hins vegar er eldurinn kyntur af sparsemiskröfum kjósendanna. Meðalvegurinn milli þessara elda er vandfarinn og erfitt að þræða hann svo, að maður brenni sig ekki á öðrum hvorum til skaða.

Jeg get að vissu leyti sagt, að afstaða mín í þessu máli sje ekki sem verst, þar sem málið snertir mig persónulega svo harla lítið. Jeg tek sem sje ekki laun mín eftir hinum nýrri prestalaunalögum, heldur er jeg svo heppinn að falla undir gömlu prestalaunalögin. Og uppbót á þeim launum, sem samkvæmt gamla laginu eru goldin í fríðu, hefir engum komið til hugar að greiða skyldi. Jeg tók það fram áður en prestalaunalögunum var breytt, og álít það enn, að eldra fyrirkomulagið hafi átt að haldast, að því er laun presta snerti.

Það var ólíklegt að breytingin sú, að setja presta á landssjóðslaun, yrði til batnaðar, enda hefir reynslan sýnt það gagnstæða, og tel jeg víst að fleiri en jeg sje nú sömu skoðunar og jeg orðnir í þessu efni, eins og sjest meðal annars á því, að nú er jafnvel farið að hugsa um að borga öllum embættismönnum laun eftir verðlagsskrá.

Annars er munurinn á því, hvort maður talar í einhverju máli eða ekki, alls enginn, því skoðanir manna koma fram í því hvernig þeir greiða atkvæði sitt, og viljinn kemur þar alveg í ljós eins og í orðunum.

Þegar þetta mál kemur til yfirvegunar, virðist mjer það fyrsta, sem þyrfti að athuga, sje það, hvort þörf sje á dýrtíðaruppbót á launum embættismanna landsins eða ekki. Nú er það öllum ljóst, að þörfin er fyrir, og móti því hafa engin andmæli komið, og þarf því ekki að eyða orðum að því. Það eru allir sammála um, að krafan um uppbót sje rjettmæt. Spurningin er að eins hvernig og með hvaða hætti henni verður fullnægt, hvaða aðferð skuli viðhöfð og hversu langt skuli farið í því efni. Ýmsar uppástungur hafa komið í þá átt, og höfum við átt kost á að hlusta á skoðanir manna í Nd. og heyra uppástungur þeirra, og sömuleiðis hafa, eins og gefur að skilja, komið fram ýmislegar uppástungur hjá oss í nefndinni. Og meðal þeirra er sú skoðun, er jeg fyrir mitt leyti hefi talið heppilegasta, að öllum embættismönnum, sem hafa 1500 kr. laun eða minna, væri veitt dýrtíðaruppbót. Og alls ekkert frekar. Jeg geng út frá því, að þessar 1500 kr. gangi til þess að afla allra brýnustu lífsnauðsynja. Þetta held jeg, að hefði verið einfaldasta leiðin, hvort sem uppbótin hefði verið sett þá 40%, 50% eða jafnvel 60%.

Önnur till. kom fram í nefndinni, þess efnis, að veitt væri 50% uppbót af 1. þúsundinu, 25% af 2. og 10% af því 3. og svo ekki frekar.

Enn fremur hafði nefndin meðferðis annan „skala“, annan útreikning eftir dr. Ólaf Daníelsson. Er þar gengið út frá því, að öll launin verði bætt upp, hin hæstu einnig lítið eitt. Er þar eins og í tillögu fjárveitinganefndar Nd. byrjað á 1500 kr. með 50% uppbót, en endað á 5% uppbót á 4500 kr. og það, sem þar er fyrir ofan, Það er því sameiginlegt við allar uppástungur, að miða hæstu prósenturnar við 50%, og er þá gefið, að allir eru þar sammála. Mismunurinn er þá að eins sá, hvernig eigi svo að halda áfram. En þar sem engin tök eru á nú, sakir naumleika tímans, að gjöra gagngjörðar breytingar, verður að halla sjer að grundvelli þeim, er hv. Nd. hefir lagt. Tíminn leyfir ekki, að hægt sje að ræða málið hjer eins og í Nd., eða gjöra verulegar breytingar á því. því liggur ekki annað fyrir en ganga að till. hv. Nd. óbreyttri, eða gjöra breytingu svo að grundvöllurinn raskist í engu, að eins lagfæra það, sem bæði mjer og öðrum hefir fundist að spilst hafi í meðförunum á síðustu stundu í Nd. Tillaga nefndarinnar er því sú, og er ofur einföld, að fella burt viðaukatillögu þá, er fram kom við síðari umræðu um málið í hv. Nd. Jeg veit að öllum hv. þm. er ljóst í hverju þessi viðaukatill. er fólgin, en samt ætla jeg að fara um hana nokkrum orðum, og sýna misrjettinn, sem hún flytur með sjer.

Í fyrsta lagi fer hún fram á að svifta einhleypa launaþiggjendur ? af uppbótinni. Það er ljóst hvað þetta snertir, að frádrátturinn kemur aðallega niður á t. d. barnakennurum út um landið, ungum mönnum, sem allir hafa viðurkent, að lifi við sultarlaun, en eru með nauðsynlegustu og þörfustu mönnum þjóðar vorrar að allra dómi. Og á hina hliðina kemur frádrátturinn niður á uppgjafa gamalmennum.

Hinir, sem þar eru á milli, hafa allflestir fyrir einhverjum að sjá, eða það er hreinasta undantekning ef ekki er svo, og þetta snertir þá því ekki.

Hitt atriðið, að þeir eigi einnig að missa ?, sem hafa 600 krónur í tekjur af framleiðslu einhverrar atvinnu á sjó eða landi, það held jeg að sje afar-þýðingarlítið. Jeg hygg að slík dæmi, að embættismenn hafi 600 kr. hreinar tekjur af búi sínu, sje hreint og beint ekki til, eða þá sem hreinasta undantekning. Jeg get í þessu efni tekið dæmi af sjálfum mjer. Það er hverjum næst að stinga hendinni í sinn eigin barm. Jeg mundi geta lagt drengskaparorð það, sem hjer er talað um við því, að minn búskapur hefir ekki gefið neinar hreinar tekjur af sjer; þvert á móti hefi jeg jafnan orðið að leggja embættistekjurnar inn í hann, til þess að hann fái borið sig, og tel jeg mig þó ekki meiri búskussa en hvern annan.

Jeg hygg því að þó leitað væri, þá væri vart hægt að finna þau bú embættismanna, sem gæfu af sjer þessar hreinu tekjur og er því þetta atriði þýðingar lítið, að eins til að standa á pappírnum.

Þá kem jeg að hinu atriði viðaukatillögunnar, að sleppa skuli allri dýrtíðaruppbót hjá þeim, sem hafa 1500 kr. tekjur auk landssjóðslauna, hvort sem það er fyrir framleiðslu eða á annan hátt. Hvað þetta atriði snertir, þá er mjer það ljóst, að það kæmi órjettlátlega niður á menn, sjerstaklega hjer í bænum. Það er kunnugt, að margir hjer eru neyddir til að afla sjer tekna auk launa, og ef þær nema 1500 krónum, þá eru þeir sviftir dýrtíðaruppbótinni samkvæmt þessu. Jeg skal leitast við að koma með dæmi þessu til skýringar. Maður, sem hefir 3500 kr. tekjur úr landssjóði, en auk þess vinnur sjer inn aukreitis sem nemur 500 krónum, hann sleppur undan þessu ákvæði, því honum ber samkvæmt aðaltillögunni að fá 25% af 3500 kr. og fær þessa uppbót, er mun verða 875 krónur, sem bætist við 4000 króna launin, og mundi hann þá hafa 4875 krónur. Svo er annar maður, sem hefir 1500 krónur í laun, en tekst að afla sjer með aukavinnu aðrar 1500 krónur. Það verða samtals 3000 krónur. Hann fær ekkert. Hjer kemur fram beint órjettlæti. Annað dæmi skal jeg taka. Maður, sem hefir 2500 kr. í laun, en tekst að afla sér viðbót, er nemur 500 kr. Það verður samtals 3000 kr. Hann fær samkv. tillögunni 1000 kr. í uppbót eða fær alls 4000 krónur. Svo er annar maður, sem hefir 2000 kr. í laun, en aflar sjer að auki 1500 kr. Það verður samtals 3500 krónur. Hann fær ekkert. Hjer er því sýnilegt, að þessi viðaukatillaga felur í sjer hreinasta órjettlæti. Jafnvel svo mikið, að letin og iðjuleysið sýnist verðlaunað, eða að minsta kosti þeim gjört jafnhátt undir höfði, hinum iðjusama og atorkusama og hinum lata og duglausa. Með tilliti til þessa hefir fjárveitinganefndin komist að þeirri niðurstöðu, að það sje ekki þinginu samandi að senda frá sjer slíka tillögu, enda hefir þetta komist í Nd. á síðustu stundu inn í aðaltillöguna, eins og tekið er fram í nefndarálitinu, lítt hugsað og undirbúningslaust, og með tilliti til þessa leggur nefndin til, að viðaukatillagan verði feld burtu.

Jeg veit ekki fyrir víst hvernig háttvirt deild lítur á þessa niðurstöðu nefndarinnar, og get því ekki fyrirfram mótmælt neinum mótbárum, sem fram kunna að koma, en ef svo færi, að þær kæmu, þá er það mitt að svara, en jeg veit líka að meðnefndarmenn mínir gjöra sitt til að hnekkja mótmælunum. Hvað snertir nefndarálit okkar, þá er það, eins og gefur að skilja, ekki eins ítarlegt og æskilegt væri, sökum þess afskamtaða, afarstutta tíma, er við höfðum yfir að ráða.