28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Sigurður Sigurðsson:

Jeg bjóst einmitt við því, að um þetta mál yrði talað nú við 1. umr. En úr því að enginn ætlar að segja neitt annar en flutningsmaður, þá langar mig að fara um málið nokkrum orðum frá almennu sjónarmiði.

Því að nú er sú stund eða sá tími upprunninn, sem ýmsir valdasjúkir menn, innan þings og utan, hafa lengi þráð, og það er að ráðherrum yrði fjölgað. Því fleiri sem ráðherrarnir eru, því meiri líkur eru til þess, að Pjetur og Páll — Björn, Jón og Sigurður — geti orðið ráðherrar.

Það bar nú að mínu áliti engin brýn nauðsyn til á þessu aukaþingi hvorki að skifta um stjórn, nje fjölga ráðherrum, eða hvaða þörf er á því að gjöra það?

Það er reyndar sagt, að einn ráðherra geti ekki kynt sjer svo öll mál, sem æskilegt væri. Jeg kannast við það, að betur sjá oft augu en auga. En þótt nú svo væri, að einn maður í ráðherrasessi, gæti ekki kynt sjer öll mál eins vel og á yrði kosið, þá er hins vegar á það að líta, að honum er jafnan innan handar, að ráðfæra sig við aðra og leita upplýsinga til þeirra um mál, er betur kunna að vita. Ráðherrann hefir landritara við hlið sjer, og má ætla, að hann leggi það eitt til málanna, er betur gegnir. Svo hefir hann þrjá skrifstofustjóra að ráðfæra sig við í vandasömum málum. Auk þess getur hann, hve nær sem er, snúið sjer til ýmsra sjerfræðinga, sem eru í þjónustu landsins, landsverkfræðingsins, vitamálaverkfræðingsins, fræðslumálastjórans, landlæknis, biskups o. s. frv. Og loks getur hann leitað til stofnana eða allsherjarfjelaga, er fara með vissa flokka atvinnumála, svo sem Búnaðarfjelagsins, Fiskifjelagsins o. s. frv. — Þetta hafa ráðherrarnir gjört að undanförnu og farið vel.

Mjer er nú næst skapi að ætla, að þessi ráðherrafjölgun, sem verið er að bollaleggja, sje meira gjörð af fordild og valdafíkn en forsjá eða skynsemi.

Jeg býst nú samt við, að þetta mál um fjölgum ráðherra, sje svo í garðinn búið, að framgangur þess og samþykt sje vís. Til þess eru refarnir skornir.

Það eru aðallega þrjár ástæður, er jeg hefi heyrt fluttar fram fyrir ráðherrafjölguninni:

1. Að þriggja manna ráðuneyti, samansett úr helstu flokkum þingsins, verði til þess að tryggja friðinn í landinu og skapa eindrægni.

2. Að stjórn með þremur ráðherrum verði sterkari gagnvart embættismönnum landsins og stöðugri í sessi.

3. Að þriggja manna stjórn verði afkastameiri og duglegri.

Jeg ætla nú að leyfa mjer að fara nokkrum orðum um hvert þessara atriða fyrir sig.

Um friðinn er það að segja, að jeg tel ekki miklar líkur fyrir því, að þessi stjórn skapi neinn Fróðafrið í landinu, eða sljetti yfir allan skoðanamun í landsmálum, og álít það ekki heldur æskilegt. Hitt er annað mál, og það væri æskilegt, ef pólitísku flokkarnir gætu sameinað sig undir eitt merki í okkar sjálfstæðismáli, svo að þjóðin stæði þar sem einn maður gagnvart útlenda valdinu. En mjer er satt að segja lítt skiljanlegt, að óhjákvæmilegt sje að fjölga ráðherrum, til þess að sameina hugi manna í sjálfstæðismálinu. Það ætti að geta orðið, þótt ráðherrunum væri ekki fjölgað.

Um styrkleika stjórnarinnar gagnvart embættismönnum er það að sega, að sú ástæða fyrir fjölguninni er alveg út í bláinn, og hefir ekki við neitt að styðjast. Jeg gæti miklu betur trúað því, að stjórn, sem svo er skipuð, að sinn maðurinn er tekinn úr hverjum flokki, yrði hikandi, óákveðin og reikul í ráði sínu gagnvart embættismönnunum.

Það er ekki ósennilegt, að stjórnin komi sjer einmitt saman um það, að sjá í gegnum fingur við embættismennina, til þess að styggja sem minst og reyna með því að tryggja setu sína í valdasessinum.

Þriðja ástæðan, að þriggjamannastjórn verði duglegri og afkastameiri heldur en er, ef einn maður skipar stjórnina, er vitanlega á meira viti bygð. En skilyrði þess er þá það, að mennirnir sjálfir sjeu duglegir og viti, hvað þeir vilji og eigi að gjöra.

En annars sje jeg ekki, að þrír ráðherrar hafi nægilegt að gjöra, er ófriðnum linnir. Og þess vegna gæti komið til mála að fjölga þeim, eins og tillagan á þgskj. 28 fer fram á, að eins á meðan ófriðurinn stendur, og ekki lengur. Það væri líklegast besta lausnin á þessu máli, úr því sem komið er.

Hitt er hálfgjört hneyksli í mínum augum, að fara nú á þessu aukaþingi að búa til eða samþykkja þrjá ráðherra fyrir fullt og fast.

Auk þess verð jeg að láta þess getið, og það er mín fasta sannfæring, að fjölgun embættismanna í landinu er undantekningarlítið eitt af því óþarfasta, er þingið getur gjört og gjörir. Mjer virðist reynslan benda á, að því fleiri sem embættismenn eru, því óduglegri verði þeir, og minna liggi eftir þá (Bjarni Jónsson: Það verður þá að fækka ráðanautunum).

»Enginn bað þig orð til hneigja, . .«

Um kostnaðaraukann, sem þetta fyrirkomulag hefir í för með sjer, skal jeg ekki fjölyrða. En hann er þó ekki neitt óverulegt atriði í þessu máli, er gengið verði þegjandi fram hjá.

Fyrir utan þann kostnað, er gengur til þess að launa með þessa nýju ráðherra tvo, er bætast við, þá verður strax óumflýjanlegt að stækka og breyta stjórnarráðshúsinu, og það kostar mikið núna í þessari dýrtíð að gjöra það. En einhverstaðar verður að hola þeim niður, þessum þremenningum.

Hvað sem nú að öðru leyti er um þessa ráðherrafjölgun að segja, þá virðist mjer auðsætt, að fjölgunin hefir í för með sjer aukna skriffinsku, sem tefur fyrir skjótri afgreiðslu málanna, eykur skrifstofustörfin og gerir stjórnarráðsskrifstofubáknið enn þá þunglamalegra í vöfum en það þó er, eins og öllu nú er háttað.

Yfir höfuð er alt þetta ráðherrabrask hálfkyndugt, fyrirhyggjulítið og ópraktiskt til frambúðar.