28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Jeg býst við, að mjer sje óhætt að leggja orð í belg um þetta mál, án þess að þurfa að óttast, að hv. samþingism. minn (S. S.) saki mig um valdafíkn. Því eftir því, sem á undan er gengið, og eftir þeirri yfirlýsing, sem jeg gaf hjer þingsetningardaginn, þá getur hann tæplega búist við, að þær hvatir ráði nokkru hjá mjer. En hitt finst mjer honum vera vorkunarlaust, að skilja það, að ekki ættu aðrir að vera öllu færari um það að dæma en jeg, hve mikil nauðsyn er á að fjölga ráðherrum, því að það ætti mjer að vera kunnara en flestum öðrum, — að 1. þm. Árn. (S. S.) alveg ólöstuðum. Því að vilji maðurinn vera að tala með um þetta mál, þá verður hann að bera eitthvert skynbragð á, hvernig staða eins ráðherra er nú og verður framvegis. En satt að segja efa jeg kunnugleika hv. samþingism. míns um þá hluti, og virði honum það til vorkunnar. Annars koma mjer þessar umræður dálítið kynlega fyrir, því jeg veit ekki betur en að 3 flokkar hjer í þinginu hafi komið sjer saman um að fjölga ráðherrum, og meira að segja valið sjer mennina, og jeg hefi ástæðu til þess að ætla, að háttv. samþingism. minn (S. S.) hafi verið einn hluthafinn í þeim bræðingi. Þessar athugasemdir hans hljóta því að koma frá hans einstaklings brjósti og vera ætlaðar okkur hinum til fræðslu, eða þá að það er hans fastur ásetningur, að greiða atkvæði á móti frv. En hví hefir hann þá tekið þátt í undirbúningi þessarar samsteypustjórnar? En auðvitað skiftir það mig fremur litlu hvort heldur er.

Annars er þetta mál ekki alveg nýtt. Jeg hefi hjer fyrir framan mig þingtíðindin frá 1911, og þar er prentað frv. um breytingu á stjórnskipunarlögum Íslands, og er þar tekið fram, að ráðherrar skuli vera þrír, og svo orðað var frv. afgreitt frá því þingi, og háttv. samþingism. minn (S. S.) greiddi þá atkv. með því svo orðuðu út úr þinginu. Um haustið 1911 fóru fram almennar Alþingiskosningar, og hygg jeg, að hv. þm. (S. S.) hafi þá, eins og flestir aðrir frambjóðendur, lofað að greiða atkv. með því frv. óbreyttu á aukaþinginu 1912, þótt fyrir sjerstök atvik yrði ekki af því, að það þá næði fram að ganga. En þar sem háttv. þm. töldu svo mikla þörf á því 1911, að ráðherrum yrði fjölgað, og ætluðu beint að hafa í sjálfum stjórnskipunarlögunum, að ráðherrar skyldu vera þrír, þá ætti þörfin ekki að vera minni nú, þar sem það er á allra vitorði, að störfin hafa aukist mjög síðan, og þó einkum síðan stríðið hófst, hafa störfin aukist svo mikið, að því trúir naumast nokkur maður. Jeg get sagt það með sanni um mig, að svo má heita, sem ófriðarráðstafanirnar hafi tekið allan minn tíma. Raunar er það einkum ein skrifstofa í stjórnarráðinu, sem tefst vegna stríðsins, en öll mál, bæði þau og önnur, verða að ganga í gegnum höndur ráðherra, og geta menn getið því nærri, að það er ekki lítið, sem það eykur störf hans.

Í stjórnarskrárfrv., sem samþ. var á þingi 1913, var að eins veitt heimild til að fjölga ráðherrum með einföldum lögum. Þessa heimild vildi jeg nota á þingi 1915, en það gekk þá ekki í gegn um þingið. Og þótt nú geti ekki verið því til að dreifa, að eiginhagsmunir mínir geti haft nokkur áhrif á sannfæringu mína um þetta mál, þá er jeg samt enn sömu skoðunar, sem jeg var á þingi 1915, og tel það mjög óforsjált ef ráðherrum verður ekki fjölgað.

Hv. samþingism. minn (S. S.) taldi upp nokkrar ástæður sínar fyrir því, að hann vildi ekki fjölga ráðherrum, en satt að segja þótti mjer hann ekki komast vel frá því, að færa rök fyrir sínu máli. Hann taldi það fyrst fram, að hann væri því mótfallinn að fjölga embættismönnum, og setti svo upp setningu um það, að því fleiri sem embættismennirnir væru, því slælegar og ver leystu þeir störf sín af hendi. Jeg veit ekki hvaðan hann hefir þenna vísdóm sinn. (Sig. Sig.: Jeg þekki það af reynslunni). Þá reynslu hlýtur hann þá að hafa frá Búnaðarfjelaginu, því að þar er hann kunnugastur. En jeg skal benda honum á eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum voru hjer sárfáir læknar, en nú eru þeir orðnir 40—50. Vill nú háttv. þm. halda því fram í alvöru, að heilbrigðismálin sjeu lakar rækt nú en á meðan læknarnir voru fáir?

Þá var önnur ástæða háttv. þm. sú, að skrifstofustörfin yrðu þyngri í vöfunum, og skriffinskan meiri ef ráðherrum yrði fjölgað. Jeg veit ekki heldur hvaðan honum kemur þessi viska. Ef alt fer fram samkvæmt lögum náttúrunnar, þá ætti hið öfuga að eiga sjer stað, því að leiðin, sem hvert mál þyrfti að fara, yrði við fjölgun ráðherranna þriðjungi styttri. Nú fara málin frá skrifstofunni til landritara og þaðan til ráðherra, en ef breytingin kemst á, þá fara málin beint frá skrifstofunum til ráðherranna. Það er einhver ný þekking, sem háttv. þm. (S. S.) hefir fengið. að störfin verði þyngri í vöfum við það, að einum lið er kipt í burtu.

Þá var þriðja ástæða háttv. þm. móti frv., sú, að ekki þyrfti þessa með, af því að ráðherrann hefði marga embættis- og sýslanamenn, sem hann gæti leitað ráða til um hvert vandamál. Það er auðvitað satt, að ráðherra bæði getur sótt og sækir ráð til sjerfræðinganna um þau mál, sem heyra undir þeirra starfssvið hvers um sig, en þessir menn eru stjórnskipulega ábyrgðarlausir, en ráðherrann ber alla ábyrgðina á stjórnarráðstöfunum. Verði nú aftur ráðherrum fjölgað, til dæmis í 3, þá bera þeir auðvitað allir ábyrgð sameiginlega á öllum stefnumálum, þótt einn þeirra að eins undirskrifi hverja sjerstaka stjórnarráðstöfun. Það getur vel verið, að um það leyti, sem stjórnin var flutt til landsins, hafi störfin ekki verið meiri en svo, að einum manni hafi verið kleift að leysa þau af hendi, en síðan hafa störfin aukist afarmikið, og get jeg til dæmis nefnt símamálin, sem þá voru ekki til, og nú eru orðin allumfangsmikil, og fleiri dæmi mætti nefna, ef þörf væri. En auk þessa stendur nú sjerstaklega á því, eins og jeg hefi áður tekið fram, að stríðið og ófriðarráðstafanir hafa aukið mjög mikið þau verk, sem ráðherrann þarf að inna af hendi. Og þegar það er nú svo, að einn maður hefir í rauninni kappnóg að gjöra, við að sjá um alt, sem að ófriðarráðstöfunum lýtur, þá er von að spurt sje, hver eigi að vinna hin störfin, ef ekki á að fjölga ráðherrum. En sleppum nú stríðinu og öllum þeim ráðstöfunum, sem gjöra verður vegna þess, þá verður samt nægilegt fyrir 3 menn að vinna. Það er ekki nema eðlilegt, að þjóðin ætlist til, að stjórnin eigi frumkvæðið að talsverðu af þeim málum, sem fyrir þingið koma, en til slíks er tæpast ætlandi, ef ekki á að fjölga ráðherrum, því að hann hefir nægilegt annað að gjöra en að starfa að undirbúningi mála undirþingið.

Sú einasta, og í fljótu bragði skoðuð, frambærilega ástæða, sem jeg heyrði hjá hv. samþingism. mínum, var sú, að þetta væri aukinn kostnaður. því verður ekki neitað, að svo er. En slíkt er í mínum augum einkisvirði, því að kostnaðaraukinn er ekki meiri en svo, að hann getur unnist upp á einu einasta máli, sem betur kynni að fara úr hendi, ef þessi breyting kæmist á. Mjer finst þessi kostnaðarauki svo lítilfjörlegt atriði, að tæplega taki því að ræða það hjer.

Um þessar brtt., sem fram eru komnar mun jeg ekki ræða, fyr en við 2. umr.