24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

64. mál, tollalög

Magnús Torfason:

Jeg vildi leyfa mjer að segja nokkur orð, sökum þess, að jeg er annar flm.brtt. á þgskj. 592. Það, sem sjerstaklega hefir valdið því, að jeg hefi komið fram með hana, er sá órjettur, sem mjer virðist það vera, að hækka um 50% toll af þeim tóbakstegundum, sem allur almenningur notar, en hækkunin á vindlum og vindlingum, sem efnaðri menn nota miklu frekar, nemur að eins örfáum %. Hins vegar lít jeg einnig svo á, að sá tollur, sem nú er á vindlum og vindlingum, sje fyllilega nægilega hár, og naumast sje rjett að reyna meira á þolrif manna um hlýðni við þau lög en þegar er að gert. Mjer virðist það að minsta kosti vera alger frágangssök á meðan ekki er komin fullkomnari tollgæsla hjer í landi en nú er.