12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

64. mál, tollalög

Eggert Pálsson:

Jeg skal ekki vera langorður, þar sem mjer skilst, að háttv. þm. sjeu leiðir orðnir á umr. þessum.

En sakir standa svo, að jeg hefi ekki enn þá tekið til máls í máli þessu, þótt það hafi gengið tvisvar í gegnum háttv. Ed., fyrst með þrem umr. og síðar einni.

Jeg vil þess vegna nú gera grein fyrir atkv. mínu. Jeg hefi nefnilega greitt atkv. móti tollhækkun þeirri, sem hjer er um að ræða.

Þó verð jeg að segja það, að stefna mín í skattamálum er sú, að auka beri tekjur landsins með öllu góðu móti, því að jeg lít svo á, að landssjóður sje sú hít, sem einhverju þurfi í að ausa, á móts við það, sem úr henni er ausið, ef ekki á að ganga til þurðar fjeð.

Og jeg verð að viðurkenna það, að tóbakstollurinn sje á rjettum grundvelli lagður, og ekki tel jeg eftir mönnum að greiða hann.

En jeg er á móti þessari hækkun af því, að jeg álít, að svo sje með þennan toll sem aðra, að takmörk sjeu, sem ekki má fara út fyrir. Hjer er um toll að ræða, sem er jafnhár og innkaupsverð vörunnar, og verður því ekki neitað, að freisting sje vakin til tollsvika, ef svo langt er gengið. Og þegar þess er gætt, að eftirlit er hjer sljóvt, og hlýtur að vera það, þá verður því ekki neitað, að eftir því sem tollar hækka, eftir því er aukið á freistni manna til tollsvika.

Þetta er ástæðan til þess, að jeg hefi verið móti hækkuninni, og er enn; mun jeg því greiða atkv. móti brtt.