29.08.1917
Efri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

71. mál, stefnubirtingar

Framsm. (Magnús Torfason):

Aðalbrtt. nefndarinnar við frv. er sú að leggja til, að upptaka mála falli niður. Nefndinni þótti ekki þörf á að hafa sjerstakt ákvæði um það, sökum þess, að leita má rjettar síns fyrir æðra dómstóli, en hins vegar þótti ísjárvert, að þrætugjarnir menn geta með þessu fengið átyllur til að tefja mál fyrir mönnum. Þá hefir nefndin einnig lagt til, að stefnuvottar þurfi ekki að setja innsigli undir nöfn sín. Þótti henni lítil trygging vera í því, með því að blýinnsigli eru nú orðin algeng. Hins vegar vildi hún leggja áherslu á, að stefnuvottar rituðu sjálfir nöfn sín, því að nú má vafalaust gera ráð fyrir, að allir stefnuvottar sjeu skrifandi. Nefndin hefir enn fremur lagt til, að birta megi stefnur á skrifstofum eða vinnustofum manna. Vildi hún með því koma í veg fyrir óþarfa flæking á heimili manna, sem oft getur komið sjer illa, og auk þess er títt, að menn búi annarsstaðar en þeir stunda atvinnu sína, þar er þeir eiga til að svara. Þá hefir nefndin bætt við einu ákvæði til skýringar á því, hvernig birta skuli stefnu bæjarstjórnum, sýslunefndum og hreppsnefndum. Telur nefndin nægja, að oddvitum eða bæjarstjórum sje birt stefnan. Loks vildi nefndin, að ákveðið væri, að ávalt skuli eftir skilið eftirrit af stefnunni. Í frv. er ákveðið, að eftirrit skuli skilið eftir, þegar stefnan er ekki birt stefndum sjálfum, en nefndinni fanst rjettara að stíga sporið fult. Aðrar breytingar eru að eins orðabreytingar, er þóttu vera til bóta.