10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

71. mál, stefnubirtingar

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er komið frá háttv. Ed., með nokkrum breytingum frá því, sem það var samþ. hjer.

Í 3. gr. frv. hefir Ed. felt úr það skilyrði, að stefnuvottar megi ekki vera í þjónustu annara, svo að í bága kæmi við starfann. Þetta er breyting, sem allsherjarnefnd Nd. getur fallist á, með því að hún gengur út frá, að þeir, sem stefnuvotta skipa, gæti þess að skipa þá eina, sem rækt geta starfann.

Í 5. gr. hefir háttv. Ed. felt það burt, að stefnuvottar skuli votta stefnubirtinguna með innsiglum sínum.

Í 8. gr. hefir Ed. skotið því inn, að birta megi stefnur í skrifstofu eða vinnustofu stefnds.

Í 9. gr. er sú breyting gerð, að jafnan skuli afhent eftirrit af stefnunni þeim, sem stefnan er birt, á kostnað stefnanda. Auk þess er í þá grein bætt inn í ákvæðið um það, hverjum megi birta stefnuna.

En aðalbreytingin liggur í því, að háttv. Ed hefir felt alveg niður 12.— 16. gr. frv. um endurupptöku mála, þegar stefndur hefir eigi getað mætt, svo að jafnan verður að áfrýja slíkum málum sem áður. Þetta gerir þó minna til, með því að aðiljum er heimilað með frv. að koma fram með ný gögn í yfirrjetti leyfislaust.

Þrátt fyrir þetta vill nefndin þó ekki hagga frv., og vegna samkomulags, sem orðið hefir milli nefnda beggja deilda, tekur nefndin aftur brtt. sínar um lýsingarorðin »ósjálfráða« og »ófjárráða«.