15.09.1917
Efri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Kristinn Daníelsson:

Jeg skal gera örstutta grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Á þinginu 1915 greiddi jeg atkv. gegn fjárveitingu til þessa manns, en nú geri jeg ráð fyrir að greiða atkv. með frv. Jeg sje, að honum er ætluð sama upphæð sem áður í fjárlagafrv. nú, og lít svo á, að með því sje slegið föstu, að hann eigi að halda þessu starfi áfram. Sje jeg því enga ástæðu til að draga hann á því, að hann hafi fulla vissu um það.

Eins og háttv. frsm. (M. T.) tók fram varðar það miklu, að hann geti fengið næði til þess að iðka rannsóknir sínar og slept öðrum störfum. Þegar fjárveitingin var samþ. 1915, var jeg þeirrar skoðunar, að ekki myndi svo mjög mikið gagn að þessum rannsóknum. Jeg ber reyndar ekki skynbragð á slíkt, en jeg heyri marga vitra menn telja þær mjög gagnvænlegar.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði, sem ef til vill gæti skift einhverju í þessu máli, að maður þessi hefir áður orðið allhart úti. Hann var á unga aldri að nokkru leyti kjörinn til þess af Alþingi að verða forkólfur þjóðarinnar í mentamálum og styrktur til undirbúnings í því skyni. En eftir að hann hafði lagt talsverðan tíma í sölurnar til þess að búa sig undir það starf, fór þó svo, að sú varð ekki lífsstaða hans. Vil jeg nú ekki vera þröskuldur í vegi fyrir því, að hann fái á þennan hátt uppbót fyrir það. Enda viðurkenna allir, að hann sje mjög nýtur maður og einkum á þessu sviði.