26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

80. mál, notkun bifreiða

Flm. (Einar Arnórsson):

Þetta er stutt frv., um breytingu á bifreiðalögunum. Jeg býst ekki við, að þörf sje á að hafa mörg orð um það nú, því að það er gerð grein fyrir frv. í athugasemdum við það.

Reynslan hefir sýnt það, að bifreiðar aka ofhart þar sem þjettbýli er mikið. Bæði er það, að vegir eru ekki svo góðir sem skyldi, og auk þess eru oft börn á götunni, því að sem stendur er t. d. hjer í Reykjavik enginn staður annar, sem þau geta hafst við á úti.

Þá er önnur breytingin samkvæmt frumvarpinu, að bifreiðarnar skuli aka eftir föstum taxta. Það er orðin trú manna á þessu landi, að bifreiðastjórar taki æði hátt gjald af þeim, sem bifreiðarnar nota, og því er farið fram á að koma á föstum gjaldskrám, í líkingu við það, sem er hjá öðrum þjóðum. Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort orðrómurinn, sem jeg mintist á, er rjettur. En þótt svo sje ekki, þá er sjálfsagt að breyta þessu svo, að ekkert handahóf geti átt sjer stað.

Jeg skal svo ekki segja meira að sinni, að eins geta þess, að enn vantar eitt atriði inn í frv., og mun jeg koma með viðaukatillögu um það við aðra umr.

Jeg óska, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, að þessari umræðu lokinni.