27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. þetta fer fram á stofnun alþýðuskóla í Austfirðingafjórðungi, myndarlegs skóla, er svari til skóla þeirra, sem nú eru til í Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungi. Ef til vill má segja, að það sje nokkuð hart aðgöngu á þessum tímum að fara fram á stofnun nýrra skóla. En með stofnun þessa skóla stendur öðruvísi á en með aðrar skólastofnanir, sem fram eru bornar í þinginu. Við gerum ekki ráð fyrir stofnkostnaði í frv., enda hlýtur hann að verða sáralítill, og varla fyrirsjáanlegt, að hann verði neinn. Auðvitað mun þó rekstur skólans í framtíðinni baka landssjóði einhver útgjöld. Á það ber að líta, að skólinn á talsverðar eignir í fasteignum og lausafje, sem eru rentubærar. Eignir þessar eru taldar upp í ástæðunum fyrir frv. Nokkuð af eignum þeim, sem þar eru taldar, eru húseignir, sem skólinn mundi nota og gæfu því ekki beinan arð. Sá hluti eignanna er hjer um bil 40,000 kr. virði; hitt er rentubært fje, sem mundi gefa af sjer langdrægt árlegan rekstrarkostnað. Kostnaðurinn mundi varla verða meiri en 2—3000 kr. á ári, umfram rentur af eignunum, svo að hjer virðist ekki til mikils mælst.

Nokkurt umtal hefir orðið um það, hvort rjettara sje að hafa bændaskóla eða alþýðuskóla á þessum stað. Við, sem þetta frv. flytjum, erum allir svo kunnugir á því svæði, sem skólans ætti einkum að njóta, að við vitum fyrir víst, að alþýðuskóli mundi miklu vinsælli en bændaskóli. Er það eðlilegt, þar sem mikill hluti af svæðinu er sjávarsveitir. Jeg vona, að þingið líti sanngjarnlega á allar ástæður, og ef skólastofnuninni verður tekið, að þá verði einmitt þessar ástæður teknar til greina.

Jeg sje enga ástæðu til að fara frekari orðum um frv. fyr en það hefir verið athugað í nefnd. Legg jeg því til, að því verði vísað til mentamálanefndar.