08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það eru hjer fram komnar 2 brtt., á þgskj. 334 og 348, sem gefa mjer tilefni til að segja nokkur orð, og þær eru báðar ósköp meinlausar og breyta litlu. Að því er snertir brtt. á þgskj. 334 skal jeg taka það fram, að orðalagið á greininni, sem hún vitnar til, 3. gr., er haft svona fyrir þá skuld, að sameinaður sýslufundur fyrir Múlasýslur benti á námsskeið, þar sem kend skyldi jarðrækt og smíðar. Jeg sá enga ástæðu til að breyta þessu orðalagi, enda lít jeg svo á, að smíðakenslan eigi aðallega að miða að því að kenna mönnum að gera við og lagfæra jarðyrkjuverkfæri, og það tel jeg vel til fallið.

Að því er síðari liðinn snertir, að kend skuli hússtjórn og mjólkurmeðferð, þá er það ákvæði sett inn í frv. af mjer, í samráði við aðra flm., vegna þess, að þessi námsskeið eru ætluð bæði körlum og konum, og því sjálfsagt, að kent sje þar það, sem sjálfsagt er að konur í sveit kunni. En mjólkurmeðferð er, ef ekki aðalatriðið, þá að minsta kosti mjög þýðingarmikið atriði í allri hússtjórn til sveita. Jeg veit ekki, hvaða grein hússtjórnar er nær fyrir sveitakonur að læra en einmitt mjólkurmeðferð. Jeg sje því ekki, að þetta ákvæði ætti að spilla fyrir því, að frv. næði fram að ganga óbreytt að þessu leyti. Brtt. á þgskj. 348 fer fram á lítils háttar orðabreyting á 4. gr., og lýtur að því að nema burt ákvæði um herbergjafjölda þann, er skólastjóri og kennari fá leigulausan. Þetta ákvæði heyrir öllu fremur undir reglugerð en lög, og skiftir því litlu máli, enda læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort heldur verður ofan á.