30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Bjarni Jónsson:

Jeg skal gera stutta grein fyrir brtt. Það er sjálfsagður hlutur og samkvæmur stjórnarskránni að taka eign manna eignarnámi, ef almenningshagur krefst. En verði hið opinbera að neyta þessa neyðarúrræðis, þá ætti að taka eignirnar fyrir fult og alt, því að sjálfsagt er, að það taki alla áhættuna með, sem kann að vera því samfara, að menn sjeu sviftir eigum og atvinnuvegi sínum. Þegar um brauðgerðarhús er að ræða, ætti áhættan ekki að vera sjerlega mikil. Bærinn ætti að geta rekið brauðgerðina á sama hátt, með sama tilkostnaði og líkum hagnaði og bakararnir áður, og almenningur þó sætt betri kjörum. Hitt er varhugavert, að taka af mönnum t. d. brauðgerðarhús á leigu til 1 eða 2 ára. Hugsast gæti, að bakararnir vildu þá helst hætta alveg brauðgerðinni. Og í annan stað þykir mjer sem miklu væri hættara við, að gerræði skeði af hendi bæjarstjórnar, ef henni er þannig heimilað að taka á leigu, þótt eftir mati sje, eignir manna og fyrirtæki, reka það á sinn kostnað um hríð og fleygja svo í menn aftur. Sje jeg ekki, að trygging sje fyrir því, að ekki sje brotið í bág við ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrjett einstaklingsins, ef þetta er lagt í hendur bæjar- eða sveitarstjórn einni. Þá væri tryggingin meiri, ef landsstjórninni einni væri þetta heimilað. Hún hefir bæði ríkari áhrif og ríkari hvöt til að fara ekki í bág við stjórnarskrána, og auk þess hefir hún venjulega kost betri lögfræðinga en bæjarstjórnir yfirleitt hafa. Eftir því, sem jeg þekki til bæjarstjórna, er tryggingin engin. En jeg tel þó rjett, að bæjar- og sveitarfjelög hafi rjett til að taka brauðgerðarhúsin gegn fullu endurgjaldi, enda hafi eigandi frjálsar hendur til að afla sjer nýrrar atvinnu, og sje ekki skyldur til að taka við fyrirtækinu aftur, ef það er illa rekið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál. Þetta mun vera álitamál og trúaratriði, en jeg held það rjett vera að fella aftan af þessum lögum þau ákvæði, er heimila að taka á leigu eignir manna að þeim nauðugum.