08.09.1917
Neðri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

127. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Frsm. (Einar Arnórsson):

Hún er virðingarverð ræktin, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) leggur við þetta fóstur sitt, sem allsherjarnefnd hefir legið á alllanga hríð, og mun líklega ekki skila frá sjer að sinni. Allsherjarnefnd hefir haft mjög mikið að gera, eins og háttv. deild er kunnugt, og áleit satt að segja þetta mál einna minst nauðsynjamál af þeim, sem hún hefir haft með höndum. Nefndin taldi það sjálfsagt, að þau mál, sem fram skyldu ganga, væru látin sitja í fyrirrúmi fyrir hinum. En er um fór að hægjast fyrir henni, tók hún þetta mál til meðferðar, því að í þeirri mynd, sem nefndin ætlast til að það verði, mun það ekki að meini verða, en má vera, að verslunarstjettin geti haft einhvern hag af því. Að við vildum ekki ákveða með lögum lokunartíma búða í Reykjavík kom af því, að okkur fanst það óheppilegt, töldum það ofumsvifamikið og óþarft að þurfa að gera lagabreytingar til þess að mega breyta um opnunar- og lokunartíma búðanna, enda gæti verið óhagræði að þurfa að bíða eftir þeirri lagasmíð, þar sem þingið kemur ekki saman nema annaðhvort ár, því að varla má gera ráð fyrir, að það yrði að gefa út bráðabirgðalög um það. Hins vegar má sjálfsagt treysta bæjarstjórn, engu síður en þinginu, til að kveða á um hentugasta opnunar- og lokunartíma búða, og brotaminna er að breyta samþykt en lögum.

Það er satt, sem háttv. þm. (M. Ó.) gat til, að okkur þótti fullumstangsmikið, og auk þess tvísýnt, hvort til bóta væri, að kallaður væri saman borgarafundur, er samþykt skyldi gera eða samþykt breyta. Meðal annars er þess að gæta, að það eru ekki bæjarmenn einir, sem það snertir, hve nær búðum er lokað; það kemur líka við þeim sveitamönnum, sem verslun reka í kaupstöðunum, og þá má gera ráð fyrir, að bæjarstjórn og stjórnarráð taki öllu fremur rjett tillit til hagsmuna bæði bæjarbúa og sveitamanna en borgarafundur.

Jeg býst við, að málið fái að ganga í gegnum þingið í þeirri mynd, sem nefndin leggur til, og þá hefir háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fengið meiri hlutann af því, sem hann óskaði.