08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg ber fram brtt. á þingskj. 890. Hún fer fram á styrk til skrifstofuhalds handa sýslumönnum og bæjarfógetum utan Reykjavíkur.

Ástæðan til þess, að brtt. þessi er fram komin, er brjef, sem sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu sendi fjárveitinganefnd Nd., og fer hann þar þess á leit, að sjer sje veitt fje til skrifstofukostnaðar. Sýnir hann fram á, að hann þurfi að kosta svo miklu fje til skrifstofuhalds, að ekki verði nema 1500 kr. eftir af launum þeim, sem honum eru ætluð.

Fjárveitinganefnd Nd. fanst sjálfsagt að taka þessa styrkbeiðni til greina. En jafnframt áleit hún sjálfsagt að veita sýslumönnum yfirleitt fje til skrifstofuhalds.

Í fyrsta lagi er það vegna stríðsástandsins í heiminum, að sýslumenn og bæjarfógetar á landinu hafa mist miklar tekjur, nema bæjarfógetinn í Reykjavík, sem hefir miklar aukatekjur; þótt þær ef til vill sjeu ekki eins miklar og áður, eru allra annara miklu minni. En aftur á móti hafa störfin, sem hvíla á þessum embættum, aukist ár frá ári, og það hefir við gengist, að störfum hefir jafnt og þjett verið bætt á þá, án þess að tekið væri nokkurt tillit til launa þeirra. Auk þess er þess að gæta, að þessi árin, sem nú standa yfir, er skrifstofuhald margfalt dýrara en áður; það gera kolin, sem til skrifstofuhaldsins þarf, meðal annars.

Þá skal jeg leyfa mjer að láta þess getið, hvað skrifstofukostnaðurinn hefir numið miklu, eftir því sem sýslumenn hafa gefið upp, er dýrtíðaruppbótin var reiknuð út fyrir þá.

Skrifstkostn. Föst laun.

kr. kr.

Í Mýra- og Borgarfj.sýslu 1200 3500

- Snæfellsnessýslu 1300 3000

- Dalasýslu 760 2500

- Barðastrandarsýslu 1580 2500

- Strandasýslu 600 2500

- Húnavatnssýslu 1326 3500

- Skagafjarðarsýslu 600 3000

- Þingeyjarsýslu 1400 3500

- Norður-Múlasýslu 2800 3500

- Suður-Múlasýslu 2300 3000

- Skaftafellssýslu 1064 3000

- Rangárvallasýslu 775 3000

- Vestmannaeyjasýslu 1600 2000

- Árnessýslu 2765 3500

- Gullbringusýslu 2570 3500

Þegar litið er á alt þetta og þegar litið er á föstu launin og á aukatekjurnar, er sýslumenn hafa, þá sjest, að fáein embætti eru vel launuð, en flest svo, að lítt sæmilegt er, og auk þess hafa aukatekjurnar brugðist nú. Þegar svo er litið á það, að allur kostnaður við embættin muni verða langtum hærri næstu ár en verið hefir, og að þessir embættismenn gegna mörgum stórum og umsvifamiklum embættum, að þeir hafa á hendi allar fjárheimtur landsins, þá sjá allir, að ekki má við svo búið standa um launakjör þeirra. Hjer er að eins að ræða um bráðabirgðaaukning, sem ráðuneytið hefir fallist á að veita fyrir næsta fjárhagstímabil. Ef menn líta með sanngirni á þetta, þá munu menn komast að sömu niðurstöðu, að ómögulegt sje annað en að taka þetta til greina, og að þessum embættismönnum verði að veita skrifstofufje. Þingið gerir líka kröfur um, að öll störf þeirra gangi sem hraðast, en þá verður það líka að sjá um, að þessir embættismenn hafi svo mikið skrifstofufje, að það geti orðið.

Eins og jeg tók fram áðan þá gegna þessir menn þýðingarmiklum störfum. Þeir verða að vinna sem mest sjálfir og spara allan kostnað sem mest, en þeim verður þá erfitt að láta alt ganga eins fljótt og heimtað er.

Vona jeg svo, að háttv. deild taki vel í þetta og samþykki þessa breytingartillögu, sem að eins fer fram á að veita þessum embættismönnum lítilfjörlegan skrifstofukostnað á þessum erfiðu tímum.