10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

146. mál, almenn hjálp

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Bjargráðanefndin hefir ekki getað átt samleið í þessu máli. Öll er hún sammála um, að áherslu beri að leggja á það, að þing og landsstjórn geri alt, sem í þeirra valdi stendur, til að stuðla að því, að landsmenn líði ekki neyð vegna dýrtíðar og ónægra nauðsynjavara. Minni hl. leggur sjerstaka áherslu á það, að landssjóður borgi nokkurn hluta af því, sem nauðsynjavörur hafa hækkað í verði undanfarið, síðan stríðið byrjaði. En meiri hlutinn vill aftur á móti gera það, sem hægt er, að með stuðningi landsins geti menn bjargað sjer sjálfir. Aðalatriðið í máli þessu er, að landsmenn fái alt það helsta, er þeir þurfa að lifa af. Og fyrsta sporið til þess er að sjá fyrir því að auka nægilega matvælaframleiðslu í landinu sjálfu, og þá fyrst og fremst að auka garðrækt á næsta sumri í stórum stíl.

Enginn efi er á, að til eru hjer víða ágætis garðyrkjustæði, og þá sjerstaklega hjer á Suðurlandi. Og teljum vjer því sjálfsagt, að landsstjórnin hlutist til um garðrækt, svo að miklu nemi, þar sem skilyrðin eru best fyrir hendi með tilliti til garðstæðis, veðráttu, áburðaraðdrátta og flutninga frá garðstæðunum. Þetta alt verður að taka til greina. Bjargráðanefndin hefir líka talið rjett, að landsstjórnin ljeti leggja svo mikla áherslu á kolagröft, að landsmenn þyrftu ekki að lenda í eldiviðarvandræðum, þótt ónóg kol flytjist frá útlöndum. Ef svo skyldi fara, að ekki yrði hægt að fiska á mótorbátum eða mótorskipum vegna steinolíuleysis, eða gufuskipum vegna kolaleysis, lítur meiri hluti svo á, að eitthvað þurfi að gera til þess að efla smábátaútveg, og þá helst að láta smíða smábáta í vetur, ef ilt verður útlit með útgerðina. En meiri hluta bjargráðanefndar er það og ljóst, að þótt næg matvæli verði til í landinu, innflutt og framleidd, þá verði mörgum erfitt að afla sjer þeirra, vegna dýrleika. En til þess, að menn geti keypt nægilega nauðsynjavöru handa sjer og sínum, þurfa þeir að hafa bæði vel borgaða og stöðuga atvinnu. Jeg álít, að vandræðin vegna dýrtíðarinnar komi harðast niður á kaupstaðabúum, því að sveitamenn geta frekar bjargast á sinni eigin framleiðslu, þótt erfitt verði. Til þess nú að koma í veg fyrir, að kaupstaða- og kauptúnabúar verði svo hart úti, ættu sveitarfjelög og landsstjórnin að gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að sjá þeim fyrir atvinnu. Það mætti t. d. í vetur sjá fjölda manna fyrir vinnu við undirbúning á ýmsu, er gera þarf í framtíðinni.

Hjer í Reykjavík þarf landið að láta reisa stórhýsi í sínar þarfir á næstu árum, og teljum vjer rjett, að þegar í vetur verði byrjað á undirbúningi. Næsta sumar mun að líkindum rætast úr vinnuleysinu, og þótt einhver brögð væru að því, ætti að vera hægt að bæta úr því með ýmislegu, sem gera þarf, svo sem vegabótum, undirbúningi hafnargerða o. fl. Vjer þykjumst þess fullvissir, að ef stríðið heldur áfram, þá beri að því, að landið neyðist til að taka stórt peningalán, til að ljetta mönnum vandræðin, og álítum vjer rjett, að hreppum og sveitarfjelögum gefist kostur á að fá lán hjá því. Svo hlýtur auðvitað að fara, að þeir, sem ekki eru nægilega vel staddir til að afla sjer nægilegra nauðsynja, verði að leita á náðir sveitarinnar.

En, eins og menn vita, er því þannig farið, að flestir vilja leggja mikið á sig og jafnvel líða skort heldur en verða sveitarinnar. En til þess nú að koma í veg fyrir, að mönnum þyki minkun að því að taka sveitarlán, eða að þeir á nokkurn hátt verði fyrir skertum rjettindum af þeim ástæðum, þá höfum vjer sett það ákvæði inn í frv., að þótt maður taki lán hjá sveit sinni frá þessum tíma og þar til 3 mán. eftir stríðið, þá verði það ekki skoðað sem venjulegur sveitarstyrkur, og hlutaðeigandi hafi í engu mist borgaraleg rjettindi, heldur sem venjulegt peningalán, sem skuli greitt eftir föngum, en þó vera fullgoldið innan 10 ára að stríðinu loknu. Þetta byggist á því, að vjer teljum rjettara, að mönnum sje veitt fje að láni, en ekki beinlínis gefið, meðan stríðið stendur yfir.

Öðru máli er að gegna að stríðinu loknu. Nefndinni hefir dottið í hug, að þá gæti komið til mála, að gefið yrði eftir eitthvað af þessum lánum, eftir því sem. ástæður væru. Jeg fyrir mitt leyti er þessari aðferð meðmæltur, en álít þó ekki heppilegt að ákveða neitt um það fyrirfram. Svo að jeg víki rjett snöggvast að frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), þá er um það að segja, að næði það fram að ganga, þá yrði svo í reyndinni, að margir mundu samkvæmt því fá styrk, þótt hann þyrfti ekki nauðsynlega á honum að halda, en eftir þessu frv. meiri hluta bjargráðanefndar verður svo ekki, heldur miðar það að því að hjálpa mönnum, svo að þeir geti bjargað sjer sjálfir, og lána þeim fje, sem þess þurfa við, og svo seinna, ef ástæður eru til, má gefa þeim það upp að einhverju eða öllu leyti.

Skal jeg svo ekki fara fleirum orðum um þetta að sinni.