08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Guðmundur Ólafsson:

Jeg á eina smábrtt. á þgskj. 886; jeg þarf ekki að segja mikið um hana. Háttv. frsm. fjárveitinganefndar (E. P.) hefir minst hennar hlýlega, en hann hjelt, að hún myndi gera lítið gagn, einkum af því, að hún stendur í frv.; hefði verið betra, að hún stæði í áliti nefndarinnar. Jeg skal ekki deila um það; máske hún geti samt gert nokkurt gagn, þar sem hún er, ef hún verður samþykt. Hún verður vonandi til þess að hvetja fjelög þau, er styrkinn eiga að hljóta, til þess að gera eitthvað í þessu efni. Jeg er á sama máli og háttv. frsm. (E. P.) um það, að ekki geti annað komið til mála en að styrkurinn verði alveg eins útborgaður, hvort sem fjelögin gera mikið eða lítið nú í þessu máli, en ef þau leggja stund á og hvetja menn til þess að bæta prjónlesið, þá tel jeg það vel farið. En þótt jeg sje ekki heimilisiðnaðarfjelögunum persónulega kunnugur, þá held jeg þó, að þau hafi fremur notað útlent efni í ýmsa þá hluti, sem frekar hafa verið til þæginda, heldur en að nokkur arður hafi verið af þeim.

Jeg veit, að öllum háttv. þm. er kunnugt um, að þessi iðnaður, prjónlesið, er talsvert notaður til útflutnings enn þá, þótt miklu meira væri það áður, en verðlagið á því sýnir best, hve það er dæmalaust óvandað, því að menn fá mjög lítið fyrir það. Jeg leit í verslunarskýrslu fyrir árið 1913; þar sjest, að prjónles hefir verið flutt út fyrir kr. 14207.00 alls, og er verðið á hinum einstöku tegundum sem hjer segir:

Tvíbandssokkar parið á 72 au.

Eingirnissokkar — - 82 —

Hálfsokkar — - 52 —

Belgvetlingar — - 34 —

Fingravetlingar — - 53 —

En þá hefir ullarpundið sjálfsagt verið eina 80 aura eða meira, og er þá auðsjeð, að ekki hafa menn þá fengið mikið fyrir vinnuna, en auðvitað er, að ef iðnaður þessi tæki framförum, þá gæti það orðið til þess að hækka hann mikið í verði, og jafnframt til að auka eftirspurnina. Það er meira að segja svo, að hjer er flutt inn prjónles, t. d. færeyskar peysur, sem allir þekkja; það er áreiðanlega ekki svo vönduð vinna á þeim, að ekki væri hægur hjá að komast upp á að útbúa þær, og það alt eins vandaðar og þessi innflutta vara er.

Það, sem enn fremur ýtti undir mig að koma fram með þessar till., var það, að nú kvað vera mjög erfitt fyrir þessi fjelög að útvega hið útlenda efni í þá hluti, sem þau hafa til þessa aðallega lagt stund á að búa til. Virðist því ekki nema sjálfsagt, að þau snúi sjer þá að þeim hlutum, sem nota má innlent efni til, sem auðvelt er að útvega nú.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þessa till., en leyfa mjer að vænta þess, að till. verði samþykt.