22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

146. mál, almenn hjálp

Pjetur Jónsson:

Það er leitt, að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstaddur, því að það var út af orðum hans, að jeg tek til máls. Jeg var að vísu ekki viðstaddur umræðu þessa máls síðast, og heyrði því ekki það, sem þá fór fram.

Jeg verð þá fyrst að benda á það, að þetta frv., sem nú er til umræðu, er ekki nema einn liður í þeim dýrtíðarráðstöfunum, sem verið er að gera. Stærsti liðurinn er afskifti stjórnarinnar af landsversluninni, sem rætt var um í gær, og þau stórtæku vöru- og skipakaup, sem hún hefir gert. Þetta frv. er því að eins einn liður í keðju. Á sama hátt var frv. um sölu á vörum undir verði, sem hjer var til umræðu fyrir skömmu, að eins annar hlekkur í keðjunni, hliðstæður þessum, en það er nú úr sögunni, svo að um það þarf ekki að ræða. Það virðist því koma í opna skjöldu, sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, við það, sem hann sagði er fyrst var rætt við hann um það í bjargráðanefndinni, hvort rjett mundi vera að selja vörur undir verði. Mjer skildist það á honum þá, að stjórnin gæti ekki fallist á, að það væri gert, nema þá í mjög smáum stíl. Hins vegar benti hann einmitt á þá vegi, sem frv. leggur til að farnir sjeu, svo sem um atvinnubæturnar. Nú virðist hann snúinn að hinu ráðinu, þegar það er um seinan, og telja þær ráðstafanir, sem frv. fjallar um, lítils virði. (B. J.: Hvernig stendur á því?) Já, það er orðið um seinan, af því að búið er að fella það. (B. J.: Það hefir nú stundum verið leiðrjettur misskilningur eftir á). Það má fara fleiri vegi en þennan, sem hjer er bent á.

Jeg skal ekki tefja umræður lengi, en að eins benda á það, út af ræðu háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að jeg get ekki sjeð, hvernig hjálpin getur orðið bráðari með því fyrirkomulagi, sem hann hugsar sjer, en með því að láta sveitarstjórnirnar ráða styrknum alveg. Jeg lít svo á, að nærtækast verði fyrir hvern einstakling að snúa sjer til þeirra, sem næstir eru og vanir að sjá málum þeirrar sveitar borgið, einkum af því að þetta heitir ekki sveitarstyrkur. (B. J.: Ekki fyr en eftir 10 ár). Já, ef ekki verður búið að gefa hann eftir. (B. J.: Ef náðin verður svo mikil). Jeg lít svo á, að ef stjórnin á að bjarga mönnum frá skorti, þá geti hún best náð því með samvinnu við sveitarstjórnirnar. Jeg álít, að fylgjast verði að landsstjórnin, sveitarstjórnirnar og hjeraðsstjórnirnar, ef vel á að vera, og jeg skil ekki, hvernig finna á þessu fyrirkomulagi það til foráttu, að þessa samvinnu á að hafa. Jeg veit ekki betur en að þessi samvinna landsstjórnarinnar og sveitarstjórnanna sje komin á, af því að stjórnin hefir sjeð, að það var heppilegt. Og þótt kvartað hafi verið undan því af sumum, að stjórnin hafi haft hjeraðastjórnir til meðalgöngu, get jeg ekki annað en verið á stjórnarinnar máli, að hún hafi gert alveg rjett í því. Höfuðatriðið er, að stjórnin hafi fjeð til, og sje fje fyrir hendi, er auðveldast, fljótlegast og sparlegast, að sveitarstjórnir, hjeraðsstjórnir og landsstjórnin vinni þar saman, eins og frv. ætlast til. Jeg get ekki sjeð, að það sje sparlegt að fara að dreifa út fje í vöruuppbætur, ef sem minst fje á að verða að sem mestum notum. Það er áreiðanlegt, að það fje, sem verður til að dreifa, verður ekki svo mikið, að ekki verði að knýja fram ítrasta sparnað og sjálfsafneitun. Jeg skil því alls ekki, hvernig á því stendur, að hæstv. forsætisráðherra skuli vera orðinn með vöruuppbótum, því að hann kom einmitt á fund í bjargráðanefndinni og var spurður, hvert álit hann hefði á þessu máli, og þá kvað hann ekki gerlegt að leggja út í vöruuppbætur, nema þá í mjög smáum stíl. Þessi umsögn hans er bókuð í gerðabók bjargráðanefndarinnar. Þess vegna skil jeg alls ekki í, að hann skuli nú segja, að stjórnin geti ekki notað þetta frv., enda þótt hægt verði að fá fje.

Jeg skal svo ekki lengja umræður frekar, en þykir það leiðinlegt, að hann skyldi ekki vilja hlusta á mig.