22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

146. mál, almenn hjálp

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Það hefir nú ekki komið margt nýtt fram, sem þarf að athuga, nema helst það, hjá háttv. þm. Barð. (H. K.), að hann sagði, að lánin mundu ekki verða tekin fyr en í ótíma. Jeg veit ekki, hvers vegna það ætti að vera. Hjer er ekki um neitt að ræða annað en venjuleg lán, sem ekki eru bundin neinu skilyrði, öðru en því, að þeir sjeu lánsþurfar, sem um þau biðja. Aðgangurinn að þessum lánum verður því greiðari heldur en að venjulegum lánsstofnunum, þar sem menn þurfa hvorki að eiga eign, til að setja að veði, nje hafa ábyrgðarmenn að baki sjer.

Þá kom háttv. þm. (H. K.) enn einu sinni með þá hugmynd að selja vöru undir verði. Jeg álít, að þessi hv. deild hafi þegar tekið afstöðu til þeirrar stefnu, og að hún verði vart tekin upp aftur. Það verður því að finna einhver ný bjargráð, ef frv. meiri hlutans verður ekki álitið nægilegt. Þessi hv. þm. (H. K.) kvað ekki neitt á móti því, að allir fengju hagnaðinn af dýrtíðarhjálpinni, því að hinir ríkari borguðu þeim mun meira í landssjóðinn, sem ástæður þeirra væru betri en hinna fátækari. Þetta er ekki rjett. Skattalöggjöf okkar er ekki komin svo langt í rjettlætisáttina, þar sem mikið af tekjum landssjóðs er hreinn og beinn nefskattur, sem fátæklingarnir verða að borga jafnt og þeir, sem ríkir eru. Þarf ekki annað en nefna kaffi- og sykurtollinn, sem er einn af stærstu tekjuliðunum og lendir jafnt á fátækum og ríkum.

Þá kem jeg að háttv. þm. Dala. (B. J.). Hann hjelt því fram, að lánsheimild þessi mundi ekki koma að notum, því að almenningur vissi ekki um lögin. Jeg skil ekki í öðru en að það berist út meðal almennings, hvaða ráðstafanir þingið gerir til að hjálpa þeim, sem þurfa. Svo geng jeg líka út frá, að hreppstjórarnir geri sitt til að útbreiða vitneskju um lögin, bæði á hreppskilaþingum, eins og venja er til, og á annan hátt. Sú ástæða er því varla á rökum bygð. Þá er það 10 ára náðin, sem hann kallaði, að lánin skuli verða að sveitarstyrk, ef þau eru ekki greidd innan þess tíma. Jeg hefi áður lýst yfir því, að jeg búist við því, að Alþingi verði þá búið að taka málið á ný til yfirvegunar og gera nýjar ákvarðanir, eða jafnvel gefa lánin upp. Það er því ekki endilega víst, að nokkurt dýrtíðarlán verði talið sem sveitarstyrkur, þótt svona sje ákveðið í frv. Mjer líst vel á brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og mun fylgja þeim, þegar þær koma fram. Uppástungu háttv. þm. Dala. (B. J.) um, að skuldirnar sjeu látnar fyrnast eftir 10 ár, hefi jeg ekki yfirvegað rækilega. En færi svo, að skuldirnar yrðu ekki gefnar upp, þá sje jeg ekki betur en að þetta gæti orðið til þess, að ekki væri hægt að ganga að þeim mönnum, sem geta borgað, en vilja ekki. Það gæti líka orðið til þess, að sveitarstjórnir færu að heimta tryggingu eða ábyrgð fyrir lánunum. Ef frv. verður nokkuð breytt, þá tel jeg, sem sagt, brtt. háttv. þm. V.- Ísf. (M. Ó.) mjög aðgengilegar, en tel vafasamt, að ráðlegt sje að gera aðrar efnisbreytingar að miklum mun.