18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það má vel vera, að tekjurnar reynist ekki eins miklar og nefndin hefir gert ráð fyrir. Það veit enginn, og er því ekki ástæða til að þrátta um það. Hitt sjá allir, að menn munu senda blöð og tímarit eins eftir sem áður, þótt burðargjald væri hækkað um helming. (Fjármálaráðherra (B. K.): Þá verða þeir að hækka verðið.) Já, útgefendur geta hækkað verðið, ef með þarf. Menn virðast ekkert tillit taka til kostnaðar landssjóðs. Jeg veit dæmi til, að menn hafa leikið sjer að því að senda hjeðan t. d. ritvjelar austur í Hornafjörð um hávetur. Þetta kostar landssjóð mikið, en sendandann sama og ekkert, því að hann lætur borga undir í 5 kr. frímerkjum, sem seljast fyrir kr. 4,50 hvert. Hví má ekki tvöfalda þetta gjald? Mjer er spurn.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði um það frv. sitt, er jeg mintist á áðan, að það væri komið fram til að bjarga lífi 20 þús. manna. (J. B.: Það sagði jeg ekki). Jú, þm. (J. B.) sagði þetta. Jeg ritaði það hjá mjer. En þetta er ekki rjett. Þar stendur ekki eitt orð um það, heldur að þeir, sem hafa í árstekjur 2200 kr., skuli fá vörur með niðursettu verði. Til þessa á að verja 8 milj. kr. Hjer er alls ekki að ræða um líf og heilsu þessara manna. Það er slagorð eitt og ekkert annað.