21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

164. mál, tekjuskattur

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir vænt um að sjá þetta frv., þótt það sje ekki í öllum atriðum samhljóða mínu. Jeg sje þó, að hv. nefnd hefir tekið ýmislegt úr mínu upp í þetta. Fyrir mjer vakti ekki neitt sjerstakt fyrirkomulag, en jeg varð auðvitað að flytja frv. í sjerstöku formi. Jeg geri það því að engu kappsmáli, þótt ekki verði samþyktar allar þær tölur, er jeg stakk upp á, því að jeg er ánægður, ef tekinn er skattur af tekjum, í stað þess að leggja hann á í blindni, eins og gert var með verðhækkunartollinum. Jeg skal ekki verja einstakar greinar þessa frv., en get þó ekki leitt hjá mjer gamalt deiluatriði, sem hefir áður valdið deilum á milli hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) og mín. Hann getur aldrei sætt sig við, að tekinn sje skattur af því, sem geymt er í sjóði, og þar ber okkur á milli, því að jeg er ekki fáanlegur til að leggja þá helgi á peningastofnanir, svo sem banka og sparisjóði, að þær einar eigi að vera undanþegnar þeirri skyldu að skýra stjórn landsins eða þeim, er hún setur fyrir sig, frá því, hvað menn eiga inni í peningum. Það er allundarlegt, ef allra ríkustu mennirnir gætu falið eignir sínar í banka eða sparisjóði og sloppið alveg við að greiða skatt af þeim með því að láta þær liggja þar. Ef mjer tæmdist arfur, sem næmi einni miljón, gæti jeg sloppið við skatt af honum með þessu móti. Fjármálaráðh. (B. K.) hefir haldið því fram, að það megi ekki leggja þessa kvöð á peningastofnanirnar. Það getur engin skattanefnd verið svo þefvís, þótt hún kæmist að, ef maður erfði eða eignaðist alt í einu stórfje, að hún geti vitað um það, ef maður eignast fje smám saman og leggur það jafnóðum í banka. Það er alveg ranglátt að láta menn sleppa við að greiða skatt af því fje. Hins vegar er engin hætta við það, að eiðsvarnir skattanefndarmenn fái að vita þetta, svo að þeir geti lagt rjett á manninn. Þeir eiga að þegja yfir því, hve mikið hann á, og það ætti ekki að vera erfiðara fyrir þá að þegja yfir, hve marga aura einhver á í sparibauk eða bankaholu, heldur en fyrir símafólkið, sem þegir yfir leyndarmálum, sem er miklu meir áríðandi að eigi komist upp.

Það getur ekki talist neinum skaði, þó að hann verði að taka þátt í almennum gjöldum til landssjóðs. Það er þvert á móti sómi hvers manns að leggja þar sem drýgstan skerf til. Það getur ekki heldur skaðað neinn, þó að sagt sje frá innieign hans í bönkum eða sparisjóðum. Ekki getur það skaðað tiltrú nokkurs manns, og líklegt er, að fjeð sje ekki svo þjófstolið, að ekki megi vitnast, að það sje til. Það væri þá helsta ástæðan, að innieignir manna í sjóðum væru ekki sem frjálsastar og mættu þess vegna ekki vitnast, en jeg veit ekki, hvort þingmenn yfirleitt álíta sig þurfa að ganga út frá því. Jeg mundi ganga inn á það, til þess að friða hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), að hækka sektirnar í 7. gr. frv. á hendur þeim nefndarmönnum, sem ljósta upp þeim upplýsingum, sem þeim eru gefnar. Það eiga menn auðvitað ekki að gera, og má taka hart á, ef það er gert.

Hvað viðvíkur ræðu háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), þá kann það rjett að vera, að erfitt sje að ákveða tekjur manna til skattaálögu. En það er svo margt erfitt í lífinu, sem ekki er hægt að sneiða hjá. Það er líka erfitt að útvega matvæli handa landsbúum og skip til að flytja þau á, eins og nú er ástatt. Svona er það um margt; það er erfitt, en það verður að gera það. Það er ekki hægt að hætta við að leggja á rjettlátan skatt fyrir þá sök eina, að erfitt sje að framkvæma álöguna. Löggjafarvaldið getur ekki beygt sig fyrir því; það verður að skipa framkvæmdarvaldinu að framkvæma skattaálöguna, þó að það sje erfitt, þegar ekki er að ræða um kröfu, sem er órjettlát eða ómögulegt að framkvæma.