10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Ef það er rjett, sem háttv. þm. Ísaf (M. T.) sagði, að hjer væri um blóðpeninga að ræða, þá skil jeg satt að segja ekki, hvernig á að leggja skatt á landsbúa. Hjer er um það eitt að ræða að leggja skatt á þá menn, sem mest hafa grætt á stríðinu, og það sje jeg ekki betur en sje rjettmætt í alla staði; það verða ekki fátæklingar í kaupstöðunum, sem þurfa að greiða þennan skatt.

Jeg hefi altaf verið á móti því, og er enn, að leggja almennan útflutningsskatt á sjávar- eða landbúnaðarafurðir, því að sá skattur lendir bæði á þeim, er mikið framleiðir, og hinum, er framleiðir svo lítið, að hann er ekki fær til skattgreiðslu. Slíkur skattur getur dregið úr framkvæmdum og er hættulegur. En það er alt annað að leggja skatt á þá, er safnað hafa eða grætt stórfje á þessum atvinnuvegum, og ef það er að taka blóðpeninga, þá munu þeir víðast vera.

Jeg vil benda á það, að það er ekki gott samræmi í orðum háttv. þm. Ísaf. (M. T). Hann vill leggja skatt á þá, sem mest hafa grætt, en hann vill þó fella niður tekjuskatt fyrir árið 1916, það ár, sem öllum er vitanlegt, að landsmenn hafa grætt mest. En jeg hygg, að hið háa Alþingi gæti ekki hent meiri misskilningur heldur en ef það feldi niður tekjuskatt fyrir þetta ár.

Jeg á fjarska erfitt með að skilja það, þegar þessi hv. þm. (M. T.) var að tala um blóðpeninga í þessu sambandi, því að ekkert getur þó verið rjettara en að leggja skatt á þá, sem gjaldþol hafa, enda er það alment viðurkent. Og hverjir hafa betra gjaldþol en þeir, sem hafa mestar tekjur? Jeg verð að segja um mig, að jeg hefi nú síðasta ár haft tekjumikið embætti með höndum, og jeg kenni ekki í brjósti um sjálfan mig, þó að jeg verði að greiða þennan skatt; jeg er miklu færari til þess og það er ekki tilfinnanlegt fyrir mig. (M. T : En ef hæstv. ráðherra hefði tapað fje?). Slíkt getur altaf komið fyrir — og verður ekki fyrir öll sker synt. En einkum er þessi skattur rjettlátur nú, þar sem segja má, að margir hafi haft óeðlilegan gróða.

Jeg skal ekki segja um það, nema rjett kunni að vera að breyta einhverju í frv., t. d. að það sje rjett, að þeir, sem hafa tekjur af landbúnaði eða sjávarútvegi, greiði ekki skatt, ef tekjur þeirra nema ekki 2000 kr., en því má breyta til 3. umr.

Forseti bar undir deildina, hvort hún óskaði, að umræðunni væri frestað, og var það samþ. með 6:5 atkv., og umr. því næst frestað.