29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir leitt, að háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók svona nærri sjer, að frv. hans var felt. Jeg get fullvissað hann um, bæði fyrir mína parta og annara, sem atkv. greiddu á móti frv., að það var ekki gert til þess að sýna honum neina óvirðingu. En hann gat ekki vonast eftir öðru af þeim mönnum, sem hann vissi að höfðu svo gagnólíkar skoðanir í þessu máli. Honum ætti að vera það ljóst, að í þessu máli ber svo mikið á milli, að ekki getur verið um neinar sættir að ræða. Jeg skil ekki, að hann ætlist til, að menn, sem frá því fyrsta hafa staðið á öndverðum meiði við hann í þessu máli, greiði atkv. eins og þeir væru andbanningar. Í þessu máli er ekki um neinn meðalveg að ræða. Jeg get ekki sjeð, að bannmenn sjeu að berja höfðinu við steininn. Eins og komið er þá eru það andbanningar, sem hegða sjer svo. Bannlögin eru nú komin á, og því tilgangslaust nú fyrst um sinn að vera að reyna að afnema þau, hvort heldur er alveg eða með miðlunartillögum, sem andbanningar svo kalla. Þó að jeg sje yfirleitt hlyntur því, að frv. sjeu ekki feld strax, þá gat jeg ekki sjeð, að það væri til nokkurs að eyða tíma í frv. það, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) bar fram ásamt

1. þm. N -M. (J. J.). Jeg sagði það í byrjun þessa þings, að jeg væri því mótfallinn, að farið væri að hrófla nokkuð við bannlögunum. Ef bannlögin væru ekki brúkleg, eins og þau eru, þá yrði víst örðugt að sannfæra menn með smábreytingum um, að þau væru góð. Það er eftirlitið með lögunum, sem þarf að skerpa. Annars er ekki þörf.

Jeg lít svo á, að litlu skifti fyrir bannlögin, hvort brtt. nefndarinnar verða samþyktar eða ekki. Að minsta kosti sje jeg ekki ástæðu til að vera á móti þeim. Jeg vona, að það yrði þá unnið með að samþykkja þær, að þá myndu lögin fá að standa í friði á næstu þingum, en öll áherslan lögð á framkvæmdina.

Jeg tel það mesta óþarfa að vera að hafa langar umræður um þetta mál, með miklum tilkostnaði fyrir landið. Þó að jeg álíti aðra brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) að vissu leyti á rökum bygða, mun jeg samt greiða atkv. á móti henni, í þeirri von, að málið komist sem tafaminst gegnum þingið.

Jeg sje enga ástæðu til að halda, að þjóðinni hafi snúist hugur í þessu máli. Jeg hefi þá trú, að töluverður meiri hluti hennar sje bannlögunum fylgjandi. Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) á eftir að sanna hið gagnstæða.

Annars vona jeg, að um þetta verði ekki oflangar umræður. Brtt., eins og þær koma frá nefndinni, gefa ekki ástæðu til þess.