03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Það gleður mig, hvað þessar umræður hafa farið rólega fram. Það hefir ekki verið yfir þeim sami stífnisblær og yfir samtali bannmanna og andbanninga, þegar þeir hittast á götu. Rifrildi um bannmálið á ekki heldur að eiga sjer stað, og það allra síst á sjálfu þingi þjóðarinnar. Nú eru bannlögin komin á, en reynast miður en skyldi, eftir þeirri. reynslu, sem fengin er frá 1915, eða jafnvel 1912. Viðfangsefnið verður því það að koma þeim í það horf, að þjóðin megi sem best við una, eða annars að afnema þau með öllu.

Brtt. á þgskj. 620 hefði kann ske náð nokkurri átt, hefði á eftir »ölvaður« komið »svo að hneyksli valdi«, En eins og hún er nær hún ekki nokkurri átt. Jeg vil spyrja menn, hvort það sje sanngjarnt að leyfa mönnum að eiga vín, sem lögin frá 1912 gera þó, en sekta þá svo, ef þeir neyta þess? Eftir brtt. er skylt að taka hvern mann fastan, sem vissa er fyrir að hafi fengið sjer snaps, enda þótt engar óspektir eða óróa geri í fylliríi. Jeg vil spyrja aftur: Hver á að dæma um það, hvort menn sjeu ölvaðir? Jeg veit mörg dæmi þess, að Good-Templarar hafa talið menn ölvaða, þó að þeir væru það ekki, svo að það væri vopn í þeirra hönd, ef þeir ættu að dæma. Það þyrfti kann ske ekki annað til en að þeir væru óvinir manns, til þess, að þeir teldu hann ölvaðan, enda þótt ósatt væri. Þó að þessu væri nú ekki til að dreifa, þá má lengi þræta um, hvort maður sje kendur, drukkinn eða blindfullur. Stigin eru miklu fleiri, og er jeg hræddur um, að örðugt mundi reynast að dæma á milli þeirra, og gæti oft orðið af hljedrægni gert.

Jeg skal geta þess, hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) til heiðurs, að hann talaði skynsamlega um Eimskipafjelagið, og taldi það sama eiga að ganga yfir öll skip, að því er undanþágur snertir. Það á ekki að svifta íslensk skip þeim rjetti, sem útlend skip hafa.

Jeg væri ekki ósamþykkur breytingum á bannlögunum, sem hægt væri að framfylgja, en jeg er því mótfallinn, að sett sjeu ákvæði inn í lögin, sem vitanlegt er að ekki er hægt að framfylgja, og eru frekar til ills en góðs.

Þá skal jeg að lokum svara þeirri ákúru 1. þm. Reykv. (J. B.) til allsherjarnefndar, að »hún bindi sig við orðin tóm.« (J. B.: Þetta sagði jeg aldrei.) Jeg skrifaði orð þingmannsins, og verða þau ekki aftur tekin. Það er hægt verk að segja þetta við nefnd, sem fær eins mikið drasl í hendurnar og allsherjarnefnd fær. En það verð jeg að segja um nefndina, sem meðlimur hennar, að hún athugar grandgæfilega hvert mál og bindur sig ekki við orðin tóm, því að þar eiga sæti ýmsir færustu menn og flínkustu lögfræðingar þingsins, áhugasamir og skýrir. Jeg efast um, að nefndin leysti meira eða betra starf af hendi, þó að hv. 1. þm. Reykv. (J. B ) væri kominn í hana.

Jeg hygg, að það væri heppilegast fyrir Alþingi að láta bannlögin standa óbreytt; það á ekki altaf að vera að hræra í þeim; annaðhvort er að láta þau standa óbreytt, fyrst að ekki fekst í gegn hið tiltækilegasta, sem er að leyfa innflutning vægari vína, eða þá beint að afnema þau.