14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Pjetur Ottesen:

Það er aðallega viðvíkjandi brtt. minni á þgskj. 919, sem jeg vildi segja nokkur orð. Hún fer fram á, að veita Sigurði Jónssyni, smáskamtalækni frá Litla-Lambhaga, 500 kr. í viðurkenningarskyni, í eitt skifti fyrir öll.

Jeg veit, að margir af háttv. deildarmönnum munu kannast við Sigurð þennan Jónsson, sem er þektur sæmdarmaður og víða að mörgu góðu kunnur. Hann hefir nú fengist við lækningar í 50 ár, með góðum árangri, og eru þess mörg dæmi, að hann hefir hjálpað, að öðrum læknum frágengnum. Enda hefir hans oft verið leitað úr fjarlægum sýslum til veikra manna. Eins og af líkum má ráða þá hefir þessi maður orðið að setja mjög til hliðar öll heimilisverk sín, sökum sífeldra ferðalaga langt út um sveitir. En þessar lækningar hans hafa ekki verið að sama skapi arðberandi, því að eins og hann er ótrauður til hjálpar við hvern sem er, er hann og brjóstgóður mjög og má nálega ekkert aumt sjá, og hefir því látið mörgum fátæklingum hjálp sína í tje, án þess að taka nokkurt endurgjald fyrir.

Þessi erfiðu ferðalög eru nú, sem vonlegt er, farin að beygja hann. Hann er nú 75 ára gamall og mjög hniginn að heilsu, og veitist því, sem vonlegt er, erfiðlega baráttan fyrir lífinu. Mjer blandast því ekki hugur um, að aðrir sjeu mjer sammála um, að það væri vel viðeigandi að gleðja þennan sæmdarmann á æfikvöldi hans, í viðurkenningarskyni fyrir, að hann hefir alla sína æfi starfað í þarfir þjóðfjelagsins.

Jeg sje, að Magnús Guðlaugsson á Bjarnastöðum hefir verið settur í fjárlögin í háttv. Ed., og mun vera, eftir því sem jeg hefi spurnir af, líkt á komið með honum og Sigurði. Og hefi jeg því leyft mjer að koma fram með þessa brtt. mína. Þeir sóttu báðir um styrk til þingsins árið 1915, en var þá synjað. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessir menn standi báðir mjög jafnt að vígi, og að ekki sje mögulegt með sanngirni að gera upp á milli þeirra, síst að setja Sigurð skör lægra í þessu efni. Þess vegna hefi jeg komið með varatill. mína við 34. lið í 16. gr., að sá liður falli burt, svo framarlega sem mín till. verður ekki samþykt. En jeg vænti þess, að til þessa komi ekki, og tek jeg þá auðvitað aftur varatillöguna.

Viðvíkjandi öðrum brtt., sem jeg hefi flutt ásamt háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), þá hefir hann nú talað fyrir þeim, og get jeg því látið vera að fara þar fleirum orðum um.

En þó hefði jeg gjarnan viljað fara nokkrum orðum um skrifstofufje til sýslumanna, sem við höfum komið fram með brtt. um að niður skuli falla, og þá ekki hvað síst minnast á það, hvernig fyrirhugað er að skifta þessu fje niður, því að þar virðist nokkuð kenna áhrifa stórveldanna í valdsmannastjettinni, sem síst þurfa að kvarta, en þar sem nú er liðið langt fram á nótt og menn orðnir þreyttir á umræðum, þá get jeg slept því að þessu sinni, en vona, að till. okkar verði samþyktar.